Eyþór Harðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, gagnrýndi harðlega hækkun ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum á fundi bæjarstjórnar í dag. Hann sagði að ákvörðunin sýndi gjánna milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar og hefði þegar haft í för með sér uppsagnir hjá fyrirtækjum í Eyjum.
Í ræðu sinni sagði Eyþór að ríkisstjórnin hefði „komið því í gegn að hækka veiðigjöldin á sjávarútvegsfyrirtækin í þeim mæli sem engan gat grunað í aðdraganda kosninga.“ Hann benti á að Samfylkingin hefði talað um tvöföldun veiðigjalda á tíu árum, en í reynd hafi hækkunin orðið á örfáum mánuðum. „Sennilega er þetta eina skiptið sem sleggjan hefur verið notuð.”
„Ég skynja ótrúlegan hroka frá stjórnarliðum sem virðast með engu móti skilja gangverk sjávarútvegs, ef þau halda að þessar aðgerðir bæti hag þjóðarinnar,“ sagði hann.
Eyþór gagnrýndi jafnframt að umsagnir sveitarfélaga um veiðigjaldafrumvarpið hefðu ekki verið teknar til greina áður en málið var afgreitt á Alþingi. Aðgerðirnar væru þegar farnar að hafa sýnileg áhrif í Eyjum.
„Niðurstaðan er að byrja að koma í ljós – uppsagnir hjá vinnslum hér í Eyjum og fjárfestingargeta fyrirtækjanna minnkar snarlega með þeim afleiðingum að umsvif þjónustufyrirtækja minnka einnig,“ sagði hann og bætti við: „Það tapa allir – líka ríkissjóður!“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst