Nýverið kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í máli sem varðar byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við íbúðarhús á Búhamri 1 í Vestmannaeyjum.
Kærandi, íbúi á Búhamri 7, hafði kært ákvörðun byggingarfulltrúa Vestmannaeyjabæjar frá í júlí um að samþykkja leyfi fyrir stækkun hússins. Kærandi taldi að sveitarfélagið hefði ekki svarað öllum athugasemdum sem borist höfðu vegna byggingarinnar og vakti athygli á umferðaröryggis- og skipulagsmálum.
Sjá einnig: Telja að viðbyggingin dragi úr umferðaröryggi
Byggingarfulltrúi hafði samþykkt umsóknina með skilyrðum um umferðaröryggi, hæð garðveggja og bílastæðanýtingu. Vestmannaeyjabær benti á að byggingin stæðist aðalskipulag og byggingarreglugerðir, hefði lítil áhrif á útsýni, skuggavarp eða innsýn annarra íbúa og valdi ekki hættu fyrir umferð.
Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki lögvarða hagsmuni sem nægjanlega tengdust ákvörðun byggingarfulltrúa til að fá málið tekið til efnislegrar meðferðar. Nefndin benti á að málsmeðferð sveitarfélagsins væri lokið með samþykkt byggingarleyfis og að almennar spurningar um lögfræðileg álitaefni væru utan valdssviðs nefndarinnar. Því var kærumáli vísað frá úrskurðarnefndinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst