„Bæði Eyjamenn og Skagfirðingar eru staðfastir í þeirri ætlan sinni að halda sínum hlut gagnvart kröfum fjármála- og efnahagsráðherra um að úteyjar Vestmannaeyja sem og Drangey á Skagafirði verði úrskurðaðar þjóðlendur. Telur hann rétt að óbyggðanefnd skeri þar úr,“ segir í Morgunblaðinu í dag og á mbl.is.
Gott til að vita að Eyjamenn eru ekki einir í sigtinu hjá fjármálaráðherra sem með þessu heldur áfram endaleysunni sem forverar hans í síðustu ríkisstjórn hófu á síðasta ári. Samstaða þvert yfir landið ætti að styrkja stöðu okkar Eyjamanna ekki síður en Skagfirðinga sem eru baráttumenn eins og saga um aldir sýnir.
„Hyggst ríkið því halda áfram málarekstri fyrir óbyggðanefnd hvað þessar eyjar varðar, enda þótt fallið hafi verið frá kröfum í langflestar eyjar og sker fyrir Íslandsströndum. Niðurstaða þar um var kunngjörð fyrir skemmstu,“ segir á mbl.is og haft eftir Írisi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum að Eyjamenn ætli ekki að láta fjármála- og efnahagsráðuneytið, eða einhvern á þess vegum, ákveða að úteyjar Vestmannaeyja verði þjóðlendur.
„Það munum við aldrei sætta okkur við. Úteyjarnar verða okkar eign, hér eftir sem hingað til,“ segir Íris.
„Mér finnst það vera með ólíkindum að þeir skuli ásælast Drangey,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri í Skagafirði. Drangey sé eyja sem hafi verið í eigu sveitarfélagsins og forvera þess í langan tíma. Bæði Íris og Sigfús Ingi segja eignarhald sveitarfélaganna á umræddum eyjum hafið yfir vafa, enda liggi fyrir skjöl sem staðfesti það.
Morgunblaðið og mbl.is.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst