Ísfisktogararnir í Síldarvinnslusamstæðunni lönduðu allir nú í byrjun vikunnar. Jóhanna Gísladóttir GK landaði í Grindavík á mánudag en í gær lönduðu Gullver NS á Seyðisfirði og Vestmannaey VE og Bergey VE í Vestmannaeyjum. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við skipstjórana og forvitnaðist um gang veiðanna.
Einar Ólafur Ágústsson á Jóhönnu Gísladóttur sagði að aflinn hefði verið um 45 tonn. „Þetta var mest þorskur, ufsi og ýsa sem fékkst í Lónsbugt og Breiðamerkurdýpi í þokkalegasta veðri. Við vorum í þrjá daga að veiðum,” sagði Einar Ólafur.
Hjálmar Ólafur Bjarnason á Gullver upplýsti að veiðin í túrnum hefði verið 95 tonn, langmest þorskur. „Við byrjuðum á Digranesflakinu og leituðum síðan að grálúðu um tíma með litlum árangri. Þá lá leiðin á Gerpisflak og Tangaflak þar sem reynt var við ýsu en það gekk ekki sérlega vel. Langmest af aflanum sem fékkst var þorskur,” sagði Hjálmar Ólafur.
Birgir Þór Sverrisson á Vestmannaey sagði að veitt hefði verið allvíða. „Við fórum frá Norðfirði á fimmtudagskvöld og byrjuðum á Kolahrygg í leit að ýsu. Síðan var farið í Sláturhúsið og þar var einnig kroppað í ýsu. Loks var haldið á Örvæntinguna og einnig verið Utanfótar. Þar fékkst mjög góður sólarhringur og við fylltum skipið. Við tók sólarhringssigling til löndunar í Eyjum,” sagði Birgir Þór.
Ragnar Waage Pálmason á Bergey var þokkalega ánægður með veiðiferðina. „Við komum með fullt skip og var aflinn blandaður, mest þorskur en einnig töluvert af ýsu, ufsa og kola. Veiðar hófust í Lónsbugtinni og síðan haldið í Sláturhúsið þar sem fékkst bæði ýsa og koli. Þá lá leiðin á Örvæntingu og við Festukransinn þar sem fékkst bæði þorskur og ufsi. Loks var haldið á Grunnfótinn og að lokum aftur á Örvæntinguna þar sem við kláruðum,” sagði Ragnar.
Jóhanna Gísladóttir hélt til veiða strax að löndun lokinni. Leiðin lá á Vestfjarðamið og er gert ráð fyrir löndun á ný á föstudag. Gullver mun halda til veiða á morgun og Vestmannaeyjaskipin á föstudag, segir að endingu í fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst