„Sigurjón frændi hafði samband við mig og spurði hvort ég væri til í að taka afleysingatúr með þeim á Þórunni. Ég hafði tvisvar áður farið túr á skipinu og fannst þetta svo skemmtilegt,“ segir Berglind Kristjánsdóttir sem tók að sér að elda fyrir áhöfnina í síðasta túr ísfisktogarans. Rætt er við Berglindi á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar.
Þar kemur fram að aðalstarf Berglindar sé bryti um borð í Herjólfi. Hún fór í túrinn á Þórunni í vaktarfríi sínu og þurfti aðeins einn dag frí frá Herjólfi. „Ég var búin að draga Hjördísi yfirbryta með mér í skemmtinefndina og hún var ekkert sérstaklega ánægð þegar ég hoppaði frá borði rétt fyrir partíið. En hún gaf mér að lokum leyfi,“ segir Berglind og brosir.
Berglind á rætur í sjómennsku. Afi hennar var skipstjóri og útgerðarmaður og faðir hennar, Kristján Óskarsson var það einnig. Hún var ung þegar hún fór í sína fyrstu veiðiferð.
„Ég fór fyrsta túrinn 1987 með Emmunni og aftur 1993 á Vestmannaey VE, sem þá var frystitogari. Ég ætlaði að fara oftar, en þegar ég kom úr túrnum komst ég að því að ég væri ólétt – og þá lauk þeirri sjómannssögu.“
Síðan í lok árs 2021 hefur Berglind verið í áhöfn Herjólfs og tekið við sem kokkur þar í júlí 2022. „Þetta er alveg geggjað – svo skemmtilegt fólk um borð,“ segir hún.
Túrinn á Þórunni gekk vel. „Hann byrjaði rólega en svo gekk þetta fínt. Við fórum vestur og túrinn tók viku. Fengum um 400 kör af blönduðum afla,“ segir Berglind.
Eitt atvik stendur þó upp úr. „Veðrið var búið að vera gott og ég gleymdi augnablik að við værum á sjó. Ég var að græja rjómatertu og súkkulaðisósu ofan á hana. Ég lagði pottinn frá mér – þá kom skyndilega veltingur, potturinn datt í gólfið og sósan dreifðist um allt eldhúsið. Mars, rjómi og súkkulaði út um allt!“
Þrátt fyrir verkefnalistann – kvöldkaffi, hryggir til að úrbeina og fisk til að flaka – var Berglind fegin að tertan sjálf fór ekki í gólfið. „Ég náði að gera nýja sósu en þurfti að skrúbba eldhúsið hátt og lágt. Það var svo mikill veltingur að ég var á hnjánum með skúringafötuna og skautaði fram og til baka,“ segir hún hlæjandi.
Álagið jókst þar sem uppþvottavélin var biluð. „Ég komst því ekkert í aðgerð í þessum túr, þó að ég hefði gjarnan viljað það. Þegar vélin var í lagi í fyrra gat ég farið með í aðgerð,“ segir hún.
Dagarnir runnu saman. „Ég vaknaði, græjaði morgunmat, vaskaði upp, fór beint í hádegismat, svo þrjúkaffi, kvöldmat og kvöldkaffi. Þá sér maður hvað uppþvottavél skiptir miklu máli.“
Hún lét þó ekki deigan síga. „Ég fór á millidekkið og flakaði bæði þorsk og rauðsprettu fyrir áhöfnina í matinn – og Sæþór Páll sonur minn hjálpaði mér,“ segir Berglind.
Sem betur fer fékk hún einnig aðstoð við matargerðina. „Grétar Þór Þórsson hjálpaði mér einn dag í pizzugerðinni og það munaði heilmikið um það. Þetta voru svo skemmtilegir og hressir peyjar – mér fannst frábært að vera með þeim,“ segir Berglind að lokum og sendir kærar þakkir til skipsfélaga sinna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst