Talsverð óánægja hefur komið upp meðal íbúa í vesturbæ Vestmannaeyja vegna umfangsmikillar upphleðslu jarðefna á gamla þvottaplaninu í Goðahrauni. Fjölmargir íbúar hafa lýst yfir áhyggjum af sjónmengun og áhrifum efnisins á nánasta umhverfi. Í kjölfar umfjöllunar á Eyjafréttum var Vestmannaeyjabæ send fyrirspurn um málið, þar sem meðal annars var spurt hver hefði veitt leyfi fyrir því að hrúga, að sögn sennilega þúsundum rúmmetra af jarðefni á svæðið, og hvort grenndarkynning hefði farið fram áður en framkvæmdin hófst.
Í svari Brynjars Ólafssonar, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar, kemur fram að það hafi verið lóðarhafi Goðahrauns 2 sem gaf leyfi fyrir geymslu jarðefnanna. Um sé að ræða tímabundna ráðstöfun þar til sökklar á nýju mannvirki verði komnir upp, sem áætlað er að gerist um eða eftir áramótin. Jarðefnið verði þá flutt aftur á verkstað.
Þar sem Vestmannaeyjabær veitti ekki leyfi fyrir framkvæmdinni fór málið ekki í grenndarkynningu. Brynjar tekur fram að lóðarhafi og framkvæmdaraðili beri ábyrgð á öllu tjóni sem kann að hljótast af geymslu jarðefnanna á lóðinni.


























