Aðventukvöld Átthagafélags Vestmannaeyinga Reykjavík var haldið í Bústaðakirkju í gærkvöldi. Þar komu margir Eyjamenn saman og áttu ánægjulega kvöldstund í aðdraganda jóla. Bræðratungbandið, þau Jónas Þórir píanóleikari, Rúnar Ingi Guðjónsson bassaleikari og formaður Átvr ásamt söngvurunum Guðrúnu Erlingsdóttur og Þorsteini Lýðssyni leiddu viðstadda í almennum söng. Þá flutti séra Þorvaldur Víðisson jólahugvekju og jólaguðspjallið var lesið.
Alþýðusönghópurinn Vinir og vandamenn, sem tengist hetjum Eyjalaganna, þeim Oddgeiri Kristjánssyni og Ása í Bæ, með ýmsum hætti flutti síðan nokkur Eyjalög. Þeirra á meðal var lag Oddgeirs við ljóð Arnar Arnarsonar, Í bíl, sem grafið var úr gleymsku. Góður rómur var gerður að flutningi þeirra og margir tóku undir í Eyjalögunum.
Í lokin var viðstöddum boðið upp á heitt súkkulaði, kökur og konfekt í veitingsal kirkjunnar. Fólk gæddi sér á veitingunum og hlýddi á nokkrar sögur úr endurminningum Óla Gränz.























Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst