Inga Sæland, sem tekur við embætti mennta- og barnamálaráðherra í dag sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að menntakerfið hefði brugðist og vill fara finnsku leiðina og innleiða verkefnið Kveikjum neistann, sem Grunnskólinn í Vestmannaeyjum hefur fylgt með frábærum árangri frá árinu 2022. Mbl.is birti frétt um viðtalið við Ingu.
Sagði Inga að tæplega helmingur drengja útskrifast úr grunnskóla án fullnægjandi lesskilnings. Í því ljósi sé verkefnið Kveikjum neistann mjög áhugavert. Yfir 90 prósent nemenda í Grunnskóla Vestmannaeyja sem hófu nám í fyrsta bekk árið 2022 hafa náð tilskyldum viðmiðum í lesskilningi, óháð kynjum. „Ég vil segja það að ég er hreinlega að rétta fram hendurnar og bjóða sveitarfélögunum okkar og kennarasamfélaginu upp á aðstoð við að breyta kerfi sem hefur brugðist algjörlega. Kerfið hefur líka brugðist kennurunum okkar sem eru að bugast,“ sagði Inga og sagðist aðspurð horfa til Finnlands og Vestmannaeyja. Finnar hafi náð sér á strik eftir hraklega útreið í Pisakönnunum. Staða sem Íslendingar þekkja.
„Þá voru helstu sérfræðingar í menntamálum teknir að borðinu og sagt: við verðum að snúa skipinu við. Þeir koma með þessa svokölluðu finnsku leið sem ég hef verið að kynna mér, þar sem meira er horft á barnið sem einstakling fremur en heild í boxi þar sem allir eiga nánast að vera eins,“ sagði Inga.
Lausnina er að finna í Eyjum
„Þar er lögð sérstök áhersla á gleði og hjálp við barnið strax til að læra að lesa. Lögð er áhersla á að barnið finnist það öruggt í bekknum sínum, það er meiri leikur, útiveru og lestur og ekki verið að bæta á barnið landafræði, sögu og öðrum tungumálum þegar það er ólæst,“ sagði Inga.
Hljómar kunnuglega í eyrum þeirra sem fyglst hafa með Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum enda fyrirmyndin sótt til Finnlands en hefur fengið litla athygli hér á landi þrátt fyrir frábæran árangur. „Ég heimsótti Vestmannaeyjar um daginn og fór í skólann og fékk að kynnast starfinu og gleðinni sem þar ríkir, sem er aðdáunarverð,“ sagði Inga.
Inga er ekki fyrsti ráðherra mennta- og barnamála sem fær augastað á Kveikjum neistann en þeim hefur lítið orðið ágengt þrátt fyrir frábæran árangur verkefnisins. Hvað veldur skal ósagt látið en það væri mikið gæfuspor fyrir þjóðina í heild að meira yrði horft til Vestmannaeyja þegar kemur að menntun barna og unglinga. Lausnina er að finna í Eyjum.

Kveikjum neistann virkar
Einar Gunnarsson, skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja skrifaði pistil um reynslu sína af Kveikjum neistann verkefninu sem birtist á eyjafrettir.is 16. desember sl. Þar segir hann: „Eftir 23 ár í skólastarfi, bæði sem kennari og skólastjórnandi, hef ég séð mörg verkefni koma og fara í íslensku skólakerfi. Kveikjum neistann kom inn í Grunnskóla Vestmannaeyja fyrir fimm árum þegar ég var aðstoðarskólastjóri og get ég fullyrt að það er áhrifaríkasta verkefni sem hefur komið inn á borð mitt á mínum starfsferli.“



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst