Eyjamaðurinn Tómas Bent Magnússon lék allan leikinn í 1-0 sigri Hearts á Dundee FC í Skosku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Claudio Braga skoraði mark Hearts þegar hann átti gott skot fyrir utan teig á 27. mínútu leiksins.
Tómas og félagar þurftu að leika einum færri allan seinni hálfleikinn þar sem markvörður liðsins Alexander Schwolow lét reka sig af velli í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Varamarkmaðurinn Craig Gordon kom inn á og átti frábæra innkomu. Þrátt fyrir að leika einum manni færri náðu leikmenn Hearts að landa mikilvægum sigri.
Hearts er nú með sex stiga forystu á toppi Skosku úrvalsdeildarinnar. Celtic sem vann sannfærandi sigur á Dundee United í gær er í 2. sæti deildarinnar.
Tómas Bent hefur verið í nokkuð stóru hlutverki í liði Hearts frá komu hans til félagsins síðasta sumar og hefur til að mynda verið í byrjunarliðinu í síðustu sjö leikjum.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst