Ég hef aðeins verið að draga það að gera upp síðasta ár, enda hafa atburðir síðustu daga og vikur haft meiri áhrif á mig heldur en ég hefði búist við, en ég kem betur að því í seinni hluta greinarinnar.
Í byrjun síðasta árs datt ég aftur inn í þær pælingar sem alltaf kvikna annað slagið, að fá mér stærri og öflugri bát og í þessum pælingum mínum rakst ég á 2 aðila sem voru tilbúnir að taka gamla bátinn minn uppí, en verðið var samt of hátt og ekki var ég tilbúinn að veðsetja kofann, en ákvað samt að ræða þetta við góðan vin minn, sem sagði við mig þegar ég hafði lagt málið fyrir hann, þetta er ekkert mál, ég skal lána þér það sem vantar uppá.
Með þetta í farteskinu fór ég til Grímseyjar í febrúar í fyrra, alltaf gaman að koma þangað, en ég varð fyrir þó nokkrum vonbrigðum með bátinn enda alls ekki í góðu standi, en þetta var tegund sem ég þekkti vel. Reyndar náðum við ekki saman með verðið og ég var eiginlega að leggja af stað vestur á land til að skoða annan bát þegar þetta small allt saman hjá okkur.
Gamla bátnum mínum sigldi ég til Þorlákshafnar um mánaðarmótin mars/apríl og nýja bátnum til baka, byrjaði á línu strax eftir hrygningarstopp og gekk vel. Einnig gekk mér mjög vel á strandveiðunum og fór ma nokkra túra austur á Vík, en já það eru þó nokkur vandamál sem ég á eftir að leysa í bátnum, en að öðru leyti reynist hann mjög vel, en ég fékk leiðinlegar fréttir strax um miðjan maí, en þá hrundi vélin í gamla bátnum mínum, 39 ára gömlum, en það kom mér í raun og veru ekki á óvart, enda sá ég það fljótlega að það var ekkert farið eftir því sem ég sagði til um hvernig átti að nota 39 ára gamla vél. Og að sjálfsögðu var mér kennt um, en svona er nú bara þessi trillubransi.
Lundinn kom á sínum hefðbundna tíma, ekki alveg í jafn miklu magni og árið áður en einn af hápunktunum á árinu hjá mér var að fara loksins út í Miðklett. Ég var með strákinn minn með mér, þannig að ég gat sýnt honum alla helstu veiðistaðina og enduðum við reyndar á að ganga á öll fjöllin hérna á heimalandinu.
Fyrsta maí í vor ákvað ég að fara á bak við Háhá og gá hvort einhver máfsegg voru komin. Yfirleitt fæ ég bara eitt svona snemma, en í þetta skiptið fékk ég 4 egg í tveimur hreiðrum og ákvað þar með að lýsa því yfir, að þar sem fuglinn væri svona snemma í því, þá yrði þetta frábært sumar sem eiginlega gekk algjörlega eftir og ma annars var sett hitamet á Íslandi í maí. Eina undantekningin á þessu góða sumri var fyrsti dagurinn á Þjóðhátíð, sem var með þeim verri.
Byrjunin á þessu ári hefur virkilega vakið mig til umhugsunar.
Ég hringdi núna um daginn í Hartmann tannlæknir til að fá tíma, en fékk þá það svar að hann væri hættur og búið að loka stofunni og enginn að taka við. En ég ætla að nota þetta tækifæri og þakka Hartmanni kærlega fyrir mig, enda notað þjónustu hans lungann úr minni ævi.
Næst lá leið mín upp í bakaríið hjá honum Tranberg vini mínum, en þá var búið að loka því og mér skilst að það sé búið að loka því fyrir fullt og allt. Til að fá nánari fréttir ákvað ég að kíkja við hjá honum Mugg vini mínum, en þar fékk ég að heyra það að það stóð jafnvel til að loka verkstæðinu endanlega í vor eða sumar.
Þetta vakti mig virkilega til umhugsunar um mína stöðu. Nú keypti ég þennan dýra og öfluga bát með það í huga að vera á færum á sumrin og línu á veturna. Línuna hef ég beitt í gám sem ég á og stendur á bak við Sæland, en í byrjun hausts var mér tilkynnt að það væri ekki lengur leyfi fyrir að hafa gáminn þarna og ég yrði að fara með hann eitthvert annað, en í allt haust, með dyggri aðstoð frá nokkrum vinum mínum hér í Eyjum, erum við búnir að ganga á milli fyrirtækja og biðja um leyfi til að fá að setja þennan 20 feta gám einhverstaðar þar sem ég get fengið rafmagn til að keyra klefann og vatn til að skola eftir beitningu, en allstaðar hefur okkur verið hafnað. Tókum við félagarnir þá þá ákvörðun að leita til bæjarins og hefur vinur minn ma rætt þetta við bæjarstjórann, hafnarstjórann og forseta bæjarstjórnar og fleiri. Sjálfur sendi ég inn erindi til byggingarfulltrúa og hafnarstjóra en allstaðar er okkur hafnað. Ég er ekki hættur að leita, en ég neyta því ekki að mér er verulega brugðið, að það sé ekki hægt.
Þegar maður skoðar þetta hjá öðrum bæjarfélögum, þá er töluvert um það að sum þeirra reisi einingarhús til þess að laða til sín minni fyrirtæki, en hér er bara ekki blettur í boði, hvorki lóð né neitt annað.
Framtíðin hjá mér og minni útgerð hér í Eyjum er því í algjörri óvissu og maður veltir því fyrir sér hvort maður eigi bara einfaldlega að fara, enda svo sem öll börnin farin að heiman og 3 af 4 búa uppi á landi og það gera líka öll 13 barnabörnin okkar. Það hefur reyndar verið nefnt við mig að kannski þurfi maður bara að skella sér aftur í pólitíkina og kannski verða einhverjar breytingar með nýrri bæjarstjórn í vor?
En hvað sem verður, þá mun ég halda áfram að róa á meðan ég get, stefni svo á strandveiðarnar í sumar og vonandi kemur mikið af lunda í vor og að sjálfsögðu mun ég gera mér ferð bak við Háhá á 1. maí.
Takk fyrir gamla árið, gleðilegt nýtt ár.
Georg Eiður Arnarson



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst