Á föstudaginn kemur verða Fréttapýramídarnir afhentir í Eldheimum og er það í 35. skiptið sem sú viðurkenning er veitt.
Hugmyndin hafði oft verið rædd hvort blaðið Fréttir, sem síðar varð Eyjafréttir, gæti staðið fyrir árlegum viðurkenningum um hver áramót. Hugmyndin snerist um að veita einstaklingum eða félögum í Vestmannaeyjum viðurkenningar fyrir vel unnin störf að góðum málefnum, hver á sínu sviði, og fyrir að hafa stuðlað að framgangi menningarlífs, íþrótta og annarra samfélagsmála.
Í upphafi ársins 1992 ákvað ritstjórn blaðsins að hrinda þessari ágætu hugmynd í framkvæmd. Ritstjórn Frétta valdi þá þrjá einstaklinga sem hún taldi hafa unnið að góðum málum í Eyjum á árinu 1991, hver á sínu sviði, og þótti því við hæfi að þakka þeim sérstaklega með viðurkenningum sem fengu nafnið Frétta-pýramídar.
Verðlaunagripirnir – pýramídarnir – voru handunnir úr ryðfríu stáli af listamanninum Grími Marinó Steindórssyni. Steingrímur Benediktsson, gullsmiður, setti þá á blágrýtisfætur með áritaðri plötu.
Boðað var til hófs á Skansinum þar sem gestir Frétta komu saman til að samfagna. Fyrstu handhafar Frétta-pýramídanna voru Sigurður Gunnarsson, leikmaður og þjálfari ÍBV í handbolta, fyrir framlag hans til íþróttamála, Haraldur Guðnason, bókavörður, fyrir framlag hans til menningarmála og Valur Andersen fyrir framlag hans til samgöngumála.
Samantekt: Gísli Valtýsson.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst