Fréttapýramídarnir voru afhentir í dag fyrir nýliðið ár við hátíðlega athöfn. Með viðurkenningunum heiðra Eyjafréttir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir í Vestmannaeyjum sem hafa lagt samfélaginu mikilvægt og eftirtektarvert lið á sínu sviði.
Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona, hlaut Fréttapýramídann 2026 fyrir framlag sitt til íþrótta. Margrét Lára hefur markað djúp spor í íslenska knattspyrnusögu, bæði með afrekum sínum á vellinum og með því góða fordæmi sem hún hefur gefið í gegnum feril sinn.
Laxey var valið fyrirtæki ársins. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði árið 2019, félagið var stofnað 2021 og framkvæmdir hófust 2022. Í dag er fyrsti áfangi verkefnisins í fullum rekstri, annar í byggingu og framleiðslan komin vel af stað með miklum glæsibrag, þar sem 98,5% framleiðslunnar falla í hæsta gæðaflokk.
Verkefnið er það stærsta sem ráðist hefur verið í í Vestmannaeyjum, með áætlaða heildarframleiðslu upp á 42.000 tonn á ári og fjárfestingu sem nemur um 100 milljörðum króna.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hlaut Fréttapýramídann 2026 fyrir framlag til menntamála í Vestmannaeyjum. Skólinn hlaut á síðasta ári Íslensku menntaverðlaunin í flokki framúrskarandi iðn- og verkmenntunar. Verðlaunin voru veitt fyrir öflugt og nýstárlegt nám í nánu samstarfi við atvinnulífið og afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Sú viðurkenning vegur þungt, ekki aðeins fyrir skólann sjálfan heldur allt samfélagið í Vestmannaeyjum.
Hjónin Hjalti Kristjánsson, læknir, og Vera Björk Einarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, hlutu Fréttapýramídann 2026 sem Eyjafólk ársins. Þau eru heiðruð fyrir ómetanlegt framlag sitt til samfélags Vestmannaeyja um áratuga skeið. Með Fréttapýramídanum er þeim þakkað fyrir óeigingjarnt starf, mannúð og ómetanlegt framlag til samfélagsins.
Að auki var vakin athygli á góðum og áhugaverum málefnum líkt og Kótelettukvöldinu, Glacies guys og Hljómey. Thelma Gísladóttir var ræðumaður dagsins í Eldheimum. Hér að neðan má sjá ræðu Guðmundar Jóhanns Árnasonar, stjórnarformanns Eyjasýnar. Nánar verður fjallað um viðurkenningarnar og verðlaunahafana í næsta blaði Eyjafrétta, sem kemur út fimmtudaginn 29. janúar sem og hér á vefnum.

