
Bæjarráð Vestmannaeyja hefur fengið til kynningar samanburð á niðurgreiðslu heimsends matar hjá sveitarfélögum landsins. Samkvæmt minnisblaði framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs er niðurgreiðsla Vestmannaeyjabæjar um 53%, sem er hærra hlutfall en hjá mörgum öðrum sveitarfélögum sem skoðuð voru.
Málið var tekið fyrir sem framhald af umræðu á fundi bæjarráðs í desember, þar sem óskað var eftir slíkum samanburði. Fyrir ráðinu lá minnisblað þar sem gjaldskrár og fyrirkomulag heimsends matar hjá fjölda sveitarfélaga eru rakin.
Í minnisblaðinu kemur fram að flest sveitarfélög niðurgreiða heimsendan mat að einhverju marki, þó í mismiklum mæli. Til að mynda er niðurgreiðslan um 50% á Akureyri, 22% í Reykjanesbæ, 36% í Hveragerði og um 14,6% í Árborg. Í Fjarðabyggð er niðurgreiðslan almennt á bilinu 30–40%, en getur farið allt að 60% á minni stöðum. Sum sveitarfélög niðurgreiða sérstaklega akstur og í einstaka tilfellum er stuðningurinn tekjutengdur.
Í Vestmannaeyjum tók ný gjaldskrá gildi í byrjun janúar 2026. Samkvæmt henni greiðir sveitarfélagið rúmlega helming kostnaðar við heimsendan mat. Í minnisblaðinu er bent á að þessi niðurgreiðsla sé há í samanburði við mörg önnur sveitarfélög.
Jafnframt kemur fram að víða um land sé verið að endurskoða fyrirkomulag og gjaldskrár heimsends matar. Í samtölum við önnur sveitarfélög hafi komið fram að umræða sé í gangi um hækkun gjalda og endurmat á umfangi niðurgreiðslna.
Þá er bent á að samningi Vestmannaeyjabæjar við S.B. Heilsu ehf., sem sér um þjónustuna, verði sagt upp nú í janúar og rennur hann út í lok júlí 2026. Stefnt er að nýju útboði á þjónustunni, sem gæti leitt til verðhækkana.
Í minnisblaðinu er einnig fjallað um þróun þjónustunnar síðustu ár. Fjöldi þjónustuþega sem fá heimsendan mat hefur fækkað um 25% frá árinu 2022. Á sama tíma hefur fjöldi starfsmanna stofnana sveitarfélagsins sem kaupa mat í gegnum S.B. Heilsu ehf. tvöfaldast.
Í niðurstöðu sinni þakkar bæjarráð upplýsingarnar, en engar ákvarðanir voru teknar í málinu á fundinum.