Nú er árið 2019 senn á enda og því vert að fara yfir hver helstu verkefni Fjölskyldu- og tómstundaráðs hafa verið á árinu.
Til að byrja með er gott að fara yfir hvaða breytingar urðu frá og með síðustu áramótum.
Það var ánægjulegt á árinu þegar heilsuefling eldri borgara, Janusarverkefnið hófst. Virkilega góð þátttaka var á kynningarfundi verkefnisins og var það framar björtustu vonum hversu margir skráðu sig til þátttöku. Verkefnið hefur mikið forvarnargildi þar sem betri heilsa íbúa getur m.a. stuðlað að lengri sjálfstæðri búsetu.
Í ljósi þess hve mikil vitundarvakning hefur orðið á heilsueflingu tók ráðið þá ákvörðun að setja upp hreystitæki við íþróttahúsið. Gert var ráð fyrir því í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.
Opnunartími sundlaugarinnar breyttist einnig á árinu. Sumaropnunartíminn var lengdur til kl. 21 á kvöldin en eftir sumarið kom í ljós að ekki var sá opnunartími nýttur nógu vel. Var því ákveðið að í staðinn fyrir að sundlaugin loki kl. 17 um helgar að hafa opið til kl. 18:00 um helgar alla daga ársins. Ásamt því að ráðið lagði áherslu á að útisvæði sundlaugarinnar væri haldið opnu eins mikið og hægt er eftir veðri og vindum.
Stofnaður var starfshópur til þess að fara yfir framtíðarskipulag og uppbyggingu íþróttamála í Vestmannaeyjum. Hópurinn hefur safnað upplýsingum frá íþróttafélögunum og vinnur enn að því að fara yfir og greina þær upplýsingar. Ráðið kemur svo til með að taka afstöðu út frá niðurstöðum hópsins.
Á árinu var farið yfir niðurstöðu skýrslu frá Nolta sem tóku út rekstur Hraunbúða. Komu þar fram nokkrar ábendingar um reksturinn sem þegar hefur verið hafist handa í að skoða og sjá hvað við getum gert betur í rekstrinum.
Í sumar voru vígðar nýjar þjónustuíbúðir aldraðra. Var það þörf og góð viðbót við þjónustu fyrir aldraða.
Skipað var í hóp ungmennaráðs og samráðshóp um málefni fatlaðs fólks.
Afar ánægjuleg breyting verður um næstu áramót en þá mun frístundastyrkur barna 2 – 18 ára hækka um 10.000 kr og mun hann því verða um 35.000 kr á barn. Kemur þetta til með að létta undir á mörgum heimilum og er þetta liður í því að koma til móts við barnafjölskyldur í Vestmannaeyjum.
Ráðið tók ákvörðun um að fara í átak í aðgengismálum. Farið verður í það á árinu að fara yfir götukanta og gangbrautir og lagfæra það sem þarf að lagfæra ásamt því að bæta aðgengi í sundklefa í íþróttahúsinu.
Í október fór ráðið ásamt starfsmönnum barnaverndar á námskeið fyrir fulltrúa í barnaverndarnefndum hjá Barnaverndarstofu. Á námskeiðinu var farið yfir hlutverk og ábyrgð barnaverndarnefnda skv. barnaverndarlögum og helstu úrræði stofunnar voru kynnt. Var námskeiðið afar áhugavert og fræðandi.
Það er ljóst að mikið hefur verið um að vera hjá ráðinu á árinu og er hér aðeins stiklað á stóru. Þetta ráð er þess eðlis að oft þarf að taka þungar og erfiðar ákvarðanir og skiptir því sköpum að ráðsmenn og starfsmenn ráðsins geti átt traust og faglegt samband. Vil ég því sem formaður ráðsins þakka ráðinu og starfsmönnum þess fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.
Helga Jóhanna Harðardóttir
Formaður Fjölskyldu- og tómstundaráðs




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.