Á fundi bæjarráðs í hádeginu í dag var ákveðið að áfrýja ekki máli Vestmannaeyjabæjar gegn Landsbankanum. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm þann 12. desember í máli sem Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vinnslustöðin hf. höfðuðu gegn Landsbankanum hf. Bankinn var sýknaður af kröfum stefnenda.
Ríkisbankinn hagnast á kostnað stofnfjáreigenda
Niðurstaðamálsins var eftirfarandi:”Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu eru vonbrigði, en dómurinn tekur ekki til greina niðurstöðu dómskvaddra matsmanna á raunvirði stofnbréfanna, sem var umtalsvert hærra en það sem bankinn greiddi fyrir hlutina. Þannig hagnaðist ríkisbankinn á kostnað stofnfjáreigenda í Sparisjóði Vestmannaeyja, íbúa í Vestmannaeyjum sem sitja nú eftir með sárt ennið.
Bæjarráð hefur fundað með stefnendum um efni dómsins og mat lögfræðinga á honum, sem telja forsendur ekki vera til staðar fyrir áframhaldandi málarekstri. Ljóst er að áframhaldandi málarekstur yrði kostnaðarsamur fyrir bæjarsjóð án þess að líkur séu á því að æðra dómstig komist að annarri niðurstöðu. Í ljósi framangreinds mun bæjarráð því ekki áfrýja dóminum.
Bæjarráð þakkar Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og Vinnslustöðnni hf. fyrir gott samstarf í tengslum við málaferlin.”
Hafa ekki fengið fullt verð fyrir stofnfjárhluti sína
Málið snerist um það hvað mætti teljast hæfilegt endurgjald fyrir stofnfjárhluti við yfirtöku Landsbankans. Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vinnslustöðin telja að samkomulag sem gert var á sínum tíma um endurgjaldið hafi verið ósanngjarnt og að bankinn hafi auðgast með óréttmætum hætti á kostnað þeirra.
Enn fremur telja Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vinnslustöðin sig ekki hafa fengið fullt verð fyrir stofnfjárhluti sína í sparisjóðnum þegar þeir voru yfirteknir af bankanum við samruna hans og sjóðsins. Er þar byggt á mismun greiðslunnar fyrir stofnfjárhlutina og mats dómkvaddra matsmanna.
Vestmannaeyjabær krafðist þess að Landsbankinn greiddi sér tæpar 15,4 milljónir króna auk dráttarvaxta, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja að bankinn greiddi sér rúmar 21,6 milljónir auk vaxta og Vinnslustöðin fór fram á tæpar 7,6 milljónir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst