Á dögunum birti ég hér nokkrar pælingar sem upp komu eftir spjall við fólkið í bænum. Ég sagði þar að kannski kæmi frá mér eitthvað meira og nú ætla ég að standa við það. Áður en ég held áfram er rétt að taka fram að fjölmargir hafa haft samband við mig og tjáð sig mjög sammála því sem ég fjallaði um. Fyrir það er ég afar þakklátur.
Karl sem í áraraðir hefur verið framarlega í íþróttahreyfingunni sagði mér að aldrei eða sjaldan fyrr hefði verið eins gott samstarf milli hreyfingarinnar og meirihluta bæjarstjórnar en síðustu fjögur ár. Nú ræðast menn við og leysa málin í sameiningu. Mikil breyting frá því sem áður var.
Kona sem er gjörkunnug bókhaldi segir að góð fjárhagsleg staða bæjarins sé afar ánægjuleg, sérstaklega þegar horft að til þess að Sjálfstæðismenn telja sig þá einu sem geta haft stjórn opinberra fjármála á sínum höndum. Ég ætla hér ekki að nefna Bjarna Benediktsson og afrek hans neitt sérstaklega en vek athygli á því að hann er Sjálfstæðismaður og formaður hópsins. Snilli hans í fjármálum kemur sannarlega öðrum en almenningi til góða.
Sama kona benti mér reyndar á að fjárhagslegur viðsnúningur í rekstri Herjólfs væri sérstakt fagnaðarefni. Þar hefði núverandi meirihluti staðið sig frábærlega vel. Nú væri hins vegar gríðarlega mikilvægt að lægja strax þær öldur sem risið hafa í starfsemi félagsins. Þar þurfi allir að leggja sig fram.
Ungur kjósandi sagði mér að hann kynni ekki að meta það sem hann varð vitni að um daginn þegar nokkrir þungavigtarmenn Sjálfstæðisflokksins kölluðu andstæðinga sína öllum ljótum nöfnum svo sem pöddur, kakkalakka og rottur en segðu síðan kjósendum í Vestmannaeyjum að flokkurinn ræki málefnalega og vandaða kosningabaráttu.
Ég nefni hér að lokum þá yfirlýsingu Sjálfstæðismanna að bjóða ekki fram sitt bæjarstjóraefni nú. Hún er þvert á það sem flokkurinn sá hefur haldið í heiðri svo langt sem elstu enn muna. Hvað skyldi liggja hér að baki? Einn viðmælenda minna var ekki í minnsta vafa þar um. Hann sagði að búið væri að ákveða að maður ofan af landi, Grímur Gíslason, yrði ráðinn bæjarstjóri. Hann hefði undanfarið nánast einn stjórnað kosningabaráttu flokksins með ítarlegum skrifum sínum og væri því þess verðugur að setjast í bæjarstjórastólinn. Einhver feimni ríkir þó um þetta mál innan flokksins. Ég gat ekki mikið sagt um þessar upplýsingar annað en: „Já, er það?“
Ég verð að viðurkenna hér að ég hef ekki lesið mikið eftir Grím en það sem ég hef lesið finnst mér einkennist af langloku, leiða, ergi og gremju út í allt og alla. Það er að mínu mati alls ekki það sem okkur Vetmannaeyinga vantar.
En hvað um það. Mér finnst ánægjulegt hve margir Vestmannaeyingar tala vel um núverandi meirihluta bæjarstjórnar. Enn þá vænna þykir mér um hve margir telja Eyjalistann burðarásinn í málefnum Vestmannaeyjabæjar og best treystandi fyrir stjórn hans.
Ragnar Óskarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst