Slippurinn fagnar 10 ára afmæli og bauð til afmælishátíðar í dag að því tilefni. Opið var á barinn fyrir gesti og þjónar gengu um og buðu gestum upp á frumlega smárétti sem voru hver öðrum betri.
Gísli Matthías, kokkur Slippsins og eigandi, stiklaði á stóru yfir ótrúlega magnaða sögu staðarins og lýsti því þrekvirki sem hann, og fjölskyldan öll, stóðu í til að geta kallað fram tilætluð hughrif með arkítektúr og matargerð.
Ljóst er að hugsjón staðarins um sjálfbærni og nýtingu hráefnis úr heimabyggð hefur hlotið verðskuldaða athygli á heimsvísu og mega Vestmannaeyingar vera stoltir af því að hýsa veitingastað sem býr yfir slíku hugverki.
Auk Gísla Matthíasar sjálfs, tóku til máls, Íris Róbertsdóttir, Páll Magnússon, Njáll Ragnarsson, Gísli kokkur og Andri Snær Magnason, rithöfundur. Sá síðastnefndi sagðist hafa misst af Herjólfsferð heim oftar en einu sinni vegna þess að það væri bara svo erfitt að slíta sig frá borðinu á Slippnum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst