
Ekki löngu eftir upphaf Surtseyjargossins 14. nóvember 1963, tæplega áratug fyrir upphaf Heimaeyjargossins 1973, var gerð áætlun um rýmingu Heimaeyjar, að því er Víðir Reynisson, alþingismaður og fyrrum deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, greindi frá í goskaffi Átvr, Átthagafélags Vestmannaeyinga Reykjavík, í dag.
Víðir rakst á gömul skjöl um þessa rýmingaráætlun þegar hann starfaði hjá Almannavörnum. Þar var gert ráð fyrir því að nota fiskibáta Eyjamanna til að flytja íbúana frá Heimaey og voru allir Eyjabátar skráðir ásamt nöfnum skipstjórnarmanna og símanúmerum þeirra. Þá var einnig búið að áætla hvað margir farþegar gætu komist fyrir í hverjum báti. Þessi áætlun var í stórum dráttum lík atburðarásinni sem varð aðfaranótt 23. janúar 1973.

Gosmessa og goskaffi Átvr, Átthagafélags Vestmanneyinga Reykjavík, fór fram í Bústaðakirkju sunnudaginn 25. janúar 2026. Vestmannaeyingar, flestir brottfluttir, mættu margir til þessa viðburðar.
Séra Þorvaldur Víðisson sóknarprestur, sem var prestur í Eyjum 2002-2006, þjónaði fyrir altari og predíkaði. Kammerkór Bústaðakirkju söng sálma og Eyjalög við góðar undirtektir kirkjugesta. Jónas Þórir stjórnaði kórnum og lék á flygil. Gísli Helgason blokkflautuskáld lék með kórnum og Rósalind Gísladóttir (Steingrímssonar) söng einsöng. Óli Gränz rifjaði upp minningar úr Heimaeyjargosinu 1973 og var gerður góður rómur að máli hans og mikið hlegið.
Goskaffið var drukkið í safnaðarheimili kirkjunnar og voru góðar veitingar á borðum. Meðan gestir gæddu sér á veitingunum stýrði Guðrún Erlingsdóttir pallborðsumræðum um gosnóttina og hvernig fólki leið í kjölfar eldgossins 1973. Þátttakendur voru Hildur Káradóttir, fædd 1933, Birna Ólafsdóttir, fædd 1951, og Víðir Reynisson, fæddur 1967.
Maður Hildar var Gísli Eyjólfsson skipstjóri frá Bessastöðum (1929-2013) Þau höfðu byggt sér hús að Suðurvegi 19, skammt frá upptökum eldgossins. Hildur kvaðst hafa séð út um austurglugga á húsinu hvernig jörðin rifnaði þegar gosið kom upp. Þau fóru strax til ættingja vestur í bæ. Þegar þau komu út á tröppur og sáu gosið greinilega spurði fimm ára gömul dóttir þeirra hvort þetta væri stríðið í Víet Nam?
Þau sóttu síðan eitthvað af fötum og Gísli bjargaði gögnum Skipstjórafélagsins Verðandi, en hann var ritari þess, áður en þau fóru frá Heimaey til Þorlákshafnar með Hamrabergi VE. Heimili þeirra Hildar og Gísla grófst undir á fimmta degi eldgossins og fjölskyldan flutti ekki aftur til Vestmannaeyja.
Birna Ólafsdóttir átti eitt barn og var gift Guðlaugi Sigurðssyni þegar eldgosið 1973 hófst. Þau bjuggu í blokkinni við Hásteinsveg og fóru að heiman um gosnóttina án þess að slökkva ljósin eða læsa á eftir sér. Tóku með sér teppi og stórt ferðaútvarp því þau ætluðu ekki að vera lengi að heiman! Siglingin til Þorlákshafnar var ömurleg og mikil sjóveiki um borð. Fjölskyldan fékk leigða íbúð í hálfköruðu húsi í Breiðholti og húseigandinn fékk lán til að klára íbúð fyrir Eyjafólkið. Hann vildi svo losna við þessa leigjendur sem fyrst svo hann gæti leigt íbúðina á hærra verði. Þau fluttu aftur heim haustið 1973. Birna eignaðist sitt annað barn í febrúar 1974 og þurfti að fara upp á land í mæðraskoðanir og til að fæða.
Hún sagði að það hafi verið erfitt að snúa aftur heim, allt kolsvart og neglt fyrir glugga í öðru hverju húsi, ein verslun opin og vöruúrvalið fátæklegt. Pylsur eða bjúgu í boði. Heilbrigðisþjónusta var lítil og einu sinni þegar litla barnið var orðið mikið veikt reyndust báðir læknarnir vera í bíó! Faðirinn sat fyrir þeim fyrir utan bíóið til að fá þá læknisvitjun. Barnið var með lungnabólgu en komst til heilsu.
Birna nefndi að Eyjamenn hefðu ekki talað um tilfinningar sínar og ekki var búið að finna upp áfallahjálp á þessum árum. Fólk harkaði af sér og reyndi að fara á hnefunum í gegnum erfiðleikana.

Víðir Reynisson var á barnsaldri þegar Heimaeyjargosið hófst. Þau áttu heima á Illugagötu 71 og Víðir man að þau stóðu fyrir utan húsið, ásamt fleirum úr nágrenninu, og virtu fyrir sér eldvegginn austur á eyju. Hann fór með mömmu sinni og systkinum til Þorlákshafnar með Eini VE en Reynir Guðsteinsson, pabbi hans, varð eftir í Eyjum. Þau fóru til föðurömmu hans og –afa sem bjuggu í Ölfusi og dvöldu hjá þeim. Reynir var skólastjóri og bæjarfulltrúi þegar gaus og dvaldi nær allan gostímann á Heimaey og var í forystu björgunarstarfsins.
Víðir hefndi að móðir hans hafi verið ófús og hrædd við að fara aftur til Eyja eftir gosið. Þau fluttu samt, fyrir utan elstu systurina, en seldu húsið við Illugagötu og keyptu að Sóleyjargötu 1. Honum fannst umhverfið eftir gosið ævintýralegt og gaman að kíkja inn í mannlaus hús. Íþróttastarfið fór fljótt af stað.
Víðir minnti á að íbúum á Heimaey hefði fjölgaði hægt og rólega eftir gosið. Hann kvaðst hafa starfað í þrjú ár hjá Almannavörnum þegar hann ræddi fyrst við föður sinn um reynslu hans í eldgosinu. Samkvæmt þeim lýsingum var dvöl björgunarmanna í Eyjum ekki auðveld. Meðal annars þurftu sumir þeirra lyf til að geta fest svefn og þegar þeir komu í leyfi upp á land þurftu þeir mikið að sofa.
Eftir þessar umræður kynntu þeir Árni Sigfússon, formaður stjórnar Eyjaganga ehf., og Haraldur Pálsson framkvæmdastjóri áform um gangagerðina. Mjög góður rómur var gerður að máli þeirra og margir viðstaddir leyfðu sér að hlakka til þess dags þegar þessi áform yrðu að veruleika.



