Skipulagsstofnun hefur staðfest breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyjar fyrir Skanshöfða. Með staðfestingunni er mikilvægt skref stigið í átt að fyrirhugaðri uppbyggingu hótels, baðlóns og veitingastaðar á höfðanum.
Skanshöfði er staðsettur í hraunjaðri sem myndaðist í Heimaeyjargosinu árið 1973 og liggur við Skansinn. Svæðið er vinsæll áningarstaður, enda er þaðan víðáttumikið útsýni yfir innsiglinguna til Vestmannaeyja, Heimaklett, sjókví mjaldranna og til norðausturs í átt að Landeyjahöfn. Á björtum dögum blasir einnig Eyjafjallajökull við.
Breyting á aðalskipulagi felur í sér nýja stefnu um landnotkun á Skanshöfða. Samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir 4 hæða hóteli með allt að 90 herbergjum á austanverðum höfðanum, Baðlóni allt að 1.500 fermetrum að stærð, fyrir allt að 125 gesti á vestanverðum höfðanum og veitingastað við baðlónið sem rúmar allt að 50 gesti. Markmiðið er að skapa aðlaðandi áfangastað með sterka tengingu við náttúru og sögu svæðisins.
Vestmannaeyjabær og Lavaspring Vestmannaeyjar ehf. skrifuðu undir viljayfirlýsingu þann 16. desember 2020 þar sem fram kom gagnkvæmur áhugi á uppbyggingu hótels og baðlóns á Skanshöfða. Þar er lögð áhersla á að verkefnið styrki ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum og byggi á sérstöðu svæðisins.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti 16. ágúst 2021 að auglýsa sameiginlega skipulagslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag fyrir Skansinn og Skanshöfða. Samhliða var unnið umhverfismat, sem náði bæði til aðalskipulagsbreytingarinnar og deiliskipulagsins.
Með staðfestingu Skipulagsstofnunar er aðalskipulagsbreytingin nú formlega í gildi. Næsta skref er að sækja um framkvæmdarleyfi, áður en hægt verður að hefja framkvæmdir á svæðinu.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst