Áhugaverð grein um lífeyrismál sem birtist í Morgunblaðínu í dag
Árás er hafin á lífeyrisréttindi þeirra sem vinna ein erfiðustu og hættulegustu störf landsins – sjómanna og verkafólks. Ríkisstjórnin undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur boðað að afnema svokallað jöfnunarframlag vegna örorku, sem er eitt mikilvægasta úrræði lífeyriskerfisins til að tryggja jöfnuð á milli þeirra sem greiða í mismunandi lífeyrissjóði.
Ríkisstjórnin hyggst afnema jöfnunarframlag vegna örorku.
Lífeyrissjóðurinn Gildi greiðir eins og aðrir lífeyrissjóðir örorkubætur til þeirra sem missa starfsgetu. Vegna samsetningar sjóðsfélaga í Gildi sem eru aðallega sjómenn og verkafólk, er örorkubyrði sjóðsins mun hærri en flestra annarra lífeyrissjóða. Það var vegna þessa misvægis að gert var samkomulag árið 2005 á milli aðila vinnumarkaðarins, launþegasamtaka og ríkisins um að ríkið greiddi jöfnunarframlag til að jafna örorkubyrði á milli lífeyrissjóðanna. Þetta samkomulag sem reynst hefur vel, hyggst ríkisstjórnin nú rjúfa einhliða með því að afnema jöfnunarframlagið. Það má ekki gerast.
Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi sem nú er til meðferðar á alþingi, hyggst ríkisstjórnin lækka jöfnunarframlagið úr 7,2 milljörðum árið 2024, í 4,6 milljarða árið 2025 og fella það niður árið 2026. Skerðingin nemur a.m.k. 5,7% til allra lífeyrisþega Gildis á árinu 2026 nái hún fram að ganga.
Misskipting sem á ekki að líðast
Það gengur ekki upp að lífeyrissjóðir með mikla örorkubyrði beri þá byrði einir. Örorka er afleiðing starfsumhverfis – ekki einstaklingsbundinnar hegðunar. Sá sem vinnur í sjávarútvegi, í byggingariðnaði eða öðrum líkamlega erfiðum og áhættusömum störfum á ekki að njóta lakari ellilífeyris en sá sem starfaði á skrifstofu, einungis vegna þess að líkami hans gaf sig fyrr. Ef jöfnunarframlagið verður afnumið, mun Gildi lífeyrissjóður verða lakari kostur en þeir lífeyrissjóðir sem ekki þurfa að standa undir jafn háum örorkukostnaði. Þetta er kerfisbundin mismunun sem er óréttlát og á sér enga stoð í velferðarstefnu eða heiðarlegum vinnumarkaðssáttmála.
Krafa um leiðréttingu
Málið er nú til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd, mjög mikilvægt er nefndin geri breytingartillögu við fjárlögin svo tryggt verði að jöfnunarframlagið haldist. Það er óboðlegt að sjómenn, sem hafa lagt allt í störf sín, þurfi að búa við skert réttindi á efri árum vegna pólitískrar ákvörðunar sem felur í sér að ríkið hætti jöfnun á milli sjóða. Við skorum á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessari hættulegu stefnu. Mikilvægt er að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis geri breytingartillögu við fjárlögin svo tryggt verði að jöfnunarframlagið haldist.
Raunhæfasta leiðin til framtíðar er að lögfesta jöfnunarframlagið og byggja útreikning þess á árlegri greiningu á örorkubyrði milli sjóða, þannig að allir lífeyrissjóðir í landinu standi jafnfætis gagnvart fjárhæðum örorkubóta. Það er ósanngjarnt og ólíðandi að ellilífeyrir sjómanna verði lækkaður frekar vegna hærri örorkubyrði.
Félag skipstjórnarmanna skorar hér með á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að hætta við að afnema jöfnunarframlag til lífeyrissjóða.
Höfundur er formaður Félags skipstjórnarmanna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst