Á þriðjdaginn var opinn fundur í sal Kvenfélagsins Líknar um jarðgöng milli lands og Eyja. Ingi Sigurðson, byggingatæknifræðingur og einn af forsvarsmönnum Ægisdyra, áhugamannafélag um vegtengingu milli lands og Eyja rakti þær rannsóknir og kannanir sem félagið stóð fyrir á árunum 2003 til 2007 þegar ákvörðun var tekin um að byggja Landeyjahöfn. Fundinn, sem Fyrir Heimaey boðaði til sátu milli 60 og 70 manns.
Rannsóknir voru gerðar á fyrirhugaðri gangaleið og á svæðinu í kringum Vestmannaeyjar um og upp úr aldamótunum. Þær rannsóknir voru undir stjórn Ármanns Höskuldssonar jarðfræðings með aðkomu íslenskra og bandarískra vísindamanna, og m.a. fjármagnaðar af stjórnvöldum. Kom fram hjá Inga að það sem út af stendur eru rannsóknir á sinn hvorum endanum, við Heimaey og við bæinn Kross í Landeyjum þar sem áætlað er að göngin, sem verða um 18 km löng komi upp.
Ingi rakti að í útkomnum skýrslum komi skýrt fram að það sé ekkert sem útiloki gangagerðina og aukin tækni myndi ennfrekar hjálpa verkefninu. Unnar hafa verið tvær kostnaðar- og ábatagreiningar, sú fyrri árið 2003 frá Hagfræðistofnun og sú seinni árið 2020 af Víði Þorvarðarsyni í sinni meistararitgerð. Framkvæmdin væri þjóðhagslega hagkvæm, miðað við þær forsendur sem koma fram í umræddum gögnum.
Ingi upplýsti einnig á fundinum að fyrirhugað væri að endurvekja Ægisdyr á allra næstu vikum. Það kæmi það í ljós í framhaldinu hvaða hlutverk félagið myndi hafa í þessu verkefni fyrir samfélagið í Eyjum.
Fram kom hjá Arnari Péturssyni, fyrrum formanni stjórnar Herjólfs að Landaeyjahöfn og Herjólfur kosti ríkið rúman einn milljarð króna á ári, auk þess að fargjöld með Herjólfi séu árlega um einn milljarður króna.
Á 50 árum, sem reikna má með sem afskriftartíma jarðganga séu þetta um 100 milljónir og þá eigi eftir að gera ráð fyrir endurnýjun á ferju, ekki einu sinni, heldur tvisvar. Þetta kom fram.
Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar sagði bæjarstjórn í viðræðum við Sigurð Inga innviðaráðherra um samgöngumál Vestmannaeyja og væri niðurstöðu að vænta fyrr en seinna.
Páll sagði horft til Færeyinga í gerð jarðganga. Það væri ekki rétt að Danir borguðu brúsann heldur leituðu Færeyingar til stóra alþjóðlegra fjárfesta sem byðu hagstæða fjármögnun til lengri tíma. Það væri möguleiki sem þyrfti að skoða.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst