Áhafnir allra skipa VSV komnar í jólafrí

Botnfiskskip Vinnslustöðvarinnar hafa aflað vel undanfarna daga og vikur. Landað var úr Breka og Drangavík í gær, í síðasta sinn á þessu ári. Síðasta löndun ársins úr Kap var í fyrstu viku desember.

Þar með er hafið jólafrí áhafna skipanna þriggja og sömu sögu er að segja af uppsjávarskipum VSV. Þau hafa verið í höfn frá því síldarvertíð lauk í nóvember.

Fiskvinnslu verður hins vegar haldið gangandi til áramóta, segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar:

„Jólafrí sjómanna fyrirtækisins hefst fyrr og er lengra en oft áður. Við höfum ekki hreyft okkur til loðnuveiða og gerum ekki fyrr en á nýju ári. Þá var ákveðið að róa ekki milli jóla og nýjárs til að spara aflaheimildir. Botnfiskskipin verða því líka í höfn fram yfir nýár.

Talsvert af fiski er í húsi hjá okkur og fiskvinnsla því í gangi eitthvað fram í næstu viku. Það blasir líka við að saltfiski verði pakkað milli jóla og nýárs og fyrstu daga komandi árs.

Og fyrst saltfisk ber á góma má að nefna að saltfisksala hefur gengið mjög vel undanfarið hjá fyrirtækinu okkar í Portúgal, Grupeixe. Saltfiskur frá Vestmannaeyjum verður því víða á hátíðarborðum, líklega fagna nú fleiri fjölskyldur jólum í Portúgal með VSV-saltfiski en nokkru sinni áður.

Starfsmönnum í fiskvinnslu VSV hefur annars fækkað mjög undanfarna daga. Margir erlendir starfsmenn fóru heim til sín og fagna hátíðum með fjölskyldum sínum ytra. Aðrir taka sér frí fram yfir áramót.“

 

Af vef vsv.

Nýjustu fréttir

„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.