
Íþróttamaður ársins, 2025 var valinn nú fyrr í kvöld af Íþróttabandalagi Vestmannaeyja. Heiðurinn hlaut Alex Freyr Hilmarsson, knattspyrnumaður ÍBV, fyrir framúrskarandi árangur á síðasta ári. Íþróttafólk æskunnar var einnig valið, þar voru valin Tanja Harðardóttir í flokki yngri iðkenda í handbolta og fótbolta og Elís Þór Aðalsteinsson í flokki eldri iðkenda í handbolta.
Einnig voru veittar fleiri viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í íþróttum hér í Eyjum. Hér má sjá hverjir voru valdir bestir af aðildarfélögunum:
Fimleikafélagið Rán: Rakel Rut Rúnarsdóttir, Golfklúbbur Vestmannaeyja: Örlygur Helgi Grímsson, Handboltafólk árins: Dagur Arnarsson og Birna Berg Haraldsdóttir, Fótboltafólk ársins: Alex Freyr Hilmarsson og Olga Sevcova, Íþróttafélagið Framherjar Smástund/KFS: Alexander Örn Friðriksson, Íþróttafélagið Ægir: Guðni Davíð Stefánsson, Karatefélag Vestmannaeyja: Eiður Sævar Árnason, Pílufélag Vestmannaeyja: Rúnar Gauti Gunnarsson, Skotfélag Vestmannaeyja: Sigurbjörn Adolfsson og Sundfélag Vestmannaeyja: Anna Wanecka.
Eyjafréttir óskar öllu því íþróttafólki, þjálfurum og öðrum sem koma að innilega til hamingju með viðurkenningarnar.
Þá má geta þess að í tilefni af 80 ára afmæli Íþróttabandalags Vestmannaeyja ákvað stjórn ÍBV Héraðssambands að færa aðildarfélögum sínum sérstaka afmælisgjöf. Samtals verður úthlutað 5 milljónum króna til félaganna.
Helmingur upphæðarinnar, 2,5 milljónir króna, skiptist jafnt á milli allra aðildarfélaga. Hinn helmingurinn skiptist samkvæmt hlutfalli iðkenda 18 ára og yngri, enda er markmiðið að styðja sérstaklega við barna- og ungmennastarf innan félaganna.
Með þessari afmælisgjöf vill ÍBV undirstrika mikilvægi öflugs félagsstarfs og þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum, þjálfurum og stjórnarfólki sem leggja sitt af mörkum til íþróttastarfs í Vestmannaeyjum.







