Samkvæmt árlegri þjónustukönnun Gallup ríkir almenn ánægja meðal íbúa í Vestmannaeyjum með þjónustu bæjarins.
Fram kemur í könnuninni að 12 þjónustuþættir af 13 séu yfir meðaltali í samanburði við 19 stærstu sveitarfélög á landinu. Almennt er ánægja með þjónustu sveitarfélaga að minnka samkvæmt könnuninni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vestmannaeyjabæjar.
Í 1. sæti í þjónustu við barnafjölskyldur
Þar segir jafnframt að Vestmannaeyjabær sé í 1. sæti í þjónustu við barnafjölskyldur fjórða árið í röð. Sveitarfélagið hækkar sig í þremur þáttum á milli ára, m.a. þegar spurt er um þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara. Vestmanneyjabær er í 2. sæti þegar spurt er um þjónustu sveitarfélagsins þegar á heildina er litið.
Þetta er mjög jákvætt og gott veganesti í þeirri vinnu að bæta enn frekar þjónustu við bæjarbúa.
Af könnuninni má ráða að samgöngur hafa mikil áhrif á hug íbúa til Vestmannaeyja sem staðar til að búa á, þrátt fyrir að ánægja með þjónustu sveitarfélagsins sé sú sama og fyrir ári. Það kemur ekki á óvart eftir þennan vetur.
Einnig farið yfir hringrásarlögin
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, kynnti þessar niðurstöður á almennum íbúafundi sem haldinn var í gær. Jafnframt var á þeim fundi farið yfir hringrásarlögin og breytingarnar sem innleiðing þeirra hefur í för með sér. Fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis-og framkvæmdasviðs voru með erindi. Upplýsandi umræður voru að erindum loknum.
Niðurstöður þjónustukönnunar Gallup má sjá hér: Vestmannaeyjar Gallup 2024.
Ábendingar um niðurstöður þjónustukönnunarinnar og það sem má betur fara er hægt að senda á netfangið thjonustukonnun@vestmannaeyjar.is.
Fleiri myndir frá fundinum má sjá hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst