Kröpp lægð nálgast landið úr suðri og verður vaxandi austlæg átt með morgninum og slydda eða snjókoma sunnanlands, en síðar rigning. Dálítil él verða ausast, en annars yfirleitt þurrt. Síðdegis verður austanhvassviðri sunnanlands og í kvöld er útlit fyrir storm eða rok á því svæði. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland frá því klukkan 16 í dag og fram til hádegis á morgun.
Útlit er fyrir að veðrið verði einna verst allra syðst á landinu og gera spár ráð fyrir meðalvindi um 20-28 m/s og jafnvel allt að 30 m/s seint um kvöldið. Til að mynda er gert ráð fyrir allt að 30 m/s í meðalvindi í Vestmannaeyjum frá kl. 18 í dag til miðnættis.