Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, og Róbert Farestveit hagfræðingur ASÍ, heimsóttu Vestmannaeyjar nýverið að frumkvæði Drífanda stéttarfélags og Sjómannafélagsins Jötuns. Þar tóku á móti þeim Arnar Hjaltalín og Guðný Óskarsdóttir fyrir hönd Drífanda, ásamt Kolbeini Agnarssyni frá Jötni.
Á vef Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) er greint frá heimsókninni og segir þar að fundað hafi verið með forsvarsmönnum félaganna. Þar var rætt um samgöngumál, heilbrigðisþjónustu og réttindamál starfsfólks. Gestirnir lögðu áherslu á að sterkir innviðir og góð þjónusta séu lykilatriði til að tryggja búsetuöryggi og jafna möguleika í sjávarbyggðum.
Hópurinn heimsótti landeldisfyrirtækið Laxey, þar sem uppbygging er í fullum gangi. Fyrstu 150 tonnunum var slátrað nýverið og fóru 98% framleiðslunnar í hæsta gæðaflokk.
Starfsemin er í örum vexti og gæti innan 5–7 ára skilað allt að 43 milljörðum króna í árlegum útflutningstekjum. Um 100 manns starfa nú hjá Laxey og ljóst að fjöldi afleiddra starfa mun fylgja áframhaldandi uppbyggingu.
Rúmlega helmingur eignarhluta Laxeyjar er í eigu Eyjamanna, 30% hjá lífeyrissjóðum og 20% í erlendu eignarhaldi.
Einnig var komið við hjá Vinnslustöðinni þar sem unnið er að 5 milljarða króna uppbyggingu á vinnsluhúsum. Þar voru veiðigjöld og áhrif þeirra á rekstur og störf til umræðu.
ASÍ og VLFA lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða áhrif veiðigjalda af kostgæfni og tryggja að þau leiði hvorki til samþjöppunar né minna atvinnuöryggis sjómanna og fiskvinnslufólks.
Markmið VLFA og ASÍ eru skýr: að tryggja fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði til að fjárfesta, skapa störf og greiða laun sem endurspegla verðmætasköpunina í greininni.
Heimsóknin til Vestmannaeyja var afar upplýsandi og staðfesti enn á ný þann kraft og metnað sem býr í samfélaginu. Þar er unnið markvisst að verðmætasköpun sem skilar sér í atvinnuöryggi, tekjum og framtíðaruppbyggingu – ekki aðeins fyrir Eyjar heldur fyrir landið allt. Vestmannaeyjar eru samfélag með skýra sýn: að byggja framtíð sína á sterkum atvinnugreinum, nýsköpun og virku samspili fólks, fyrirtækja og stéttarfélaga, segir að endingu í greininni.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst