Líf og saga Vestmannaeyja fengu á sunnudaginn fallega umgjörð í Sagnheimum þegar tvær konur með sterk tengsl við samfélagið kynntu bækur sínar. Annars vegar var það knattspyrnukonan og Eyjakonan Margrét Lára Viðarsdóttir, sem kynnti ævisögu sína Ástríða fyrir leiknum. Hins vegar Eliza Reid, fyrrverandi forsetafrú og nú rithöfundur sem stígur nú fram sem spennusagnahöfundur með bókina Diplómati deyr. 
Margrét Lára hóf kynningu sína á því að segja frá fyrstu skrefum sínum á malarvellinum við Löngulág í Vestmannaeyjum, þá aðeins fimm ára gömul. Þar hófst ferill sem átti eftir að móta hana sem íþróttakonu og fyrirmynd og spannaði nær þrjá áratugi. Hún lýsti því hvernig bókin byggir á minningum og úrklippibókum sem amma hennar, Margrét Sigurjónsdóttir, sem flestir þekktu sem Maggý – hafði safnað í gegnum tíðina. „Sagan var í raun þegar til. Það þurfti bara að raða henni saman,“ sagði hún.
Margrét Lára er stærsta nafnið í sögu íslenskrar kvennaknattspyrnu. Hún skoraði yfir tvö hundruð mörk í úrvalsdeild, varð fimm sinnum markahæst og lék bæði í Svíþjóð og Þýskalandi. Hún er auk þess markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi, með 79 mörk í landsleikjum. Þrátt fyrir meiðsli og mótlæti gafst hún aldrei upp – þrautseigja og eldmóður eru rauði þráðurinn í bókinni.
Þá var komið að Elizu Reid, sem kynnti spennusöguna Diplómati deyr. Bókin gerist að stórum hluta í Vestmannaeyjum þar sem morð er framið á hátíðarkvöldverði kanadískra diplómata. Sendiherrafrúin ákveður að taka málið í eigin hendur og reyna að leysa það, en óvæntar hliðar sagna og tengsl koma í ljós þegar stormur skellur á og allir verða veðurtepptir. Bókin hefur hlotið mjög góðar viðtökur, raðast í efstu sætin á bóksölulistum og sjónvarpsrétturinn hefur þegar verið tryggður.
Eliza Reid var forsetafrú á árunum 2016 til 2024 og varð fljótt þekkt fyrir hlýlegt viðmót og áherslu á menningu og jafnrétti. Hún hefur einnig starfað sem ritstjóri og blaðamaður og var meðstofnandi rithöfunda- og bókmenntahátíðarinnar Iceland Writers Retreat. Með Diplómati deyr stígur hún inn í nýtt hlutverk sem höfundur spennubókmennta.
Bókakynningin í Sagnheimum var notaleg og stemningin persónuleg. Báðar sýndu Margrét Lára og Eliza hversu sterkur þráður liggur á til Vestmannaeyja minningar um seiglu og skapandi tjáningu. Margrét Lára sagði það móta krakka í Vestmannaeyjum að fara í keppnisferðir upp á land við oft erfið skilyrði, þriggja til fimm tíma ferð með Herjólfi taki á en aldrei var kvartað.
Eliza var fyrir nokkrum árum í opinberri heimsókn sjómannadagsráðs á Sjómannadaginn þar sem hún flutti hátíðarræðuna á skemmtuninni á Stakkó. Veðrið hefði mátt vera betra en hún skemmti sér vel og sómdi sér vel í skötuveislu ráðsins á Sælandi á sunnudeginum. Þar var skálað eins og í bókinni um Diplómatann sem dó. Þar koma samgöngur við sögu því hópur kanadískra verður veðurtepptur í Eyjum. Kunnuglegt stef en Eliza lætur það ekki stoppa sig því hún hefur þrisvar heimsótt Eyjarnar á þessu ári.
Búið var að birta myndband frá erindi Elizu hér á Eyjafréttum. Það má nálgast hér. Erindi Margrétar Láru má sjá hér að neðan. Halldór B. Halldórsson annaðist upptöku og myndvinnslu.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst