Umræða um samgöngumál var meðal þess sem var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær en þar bar á góma áform ríkisins og Reykjavíkurborgar um að hefjast handa við undirbúning íbúðaruppbyggingar í Skerjafirði.
Bæjarstórn sendi frá sér sameiginlega ályktun vegna málsins sem má lesa hér að neðan.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir áhyggjum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Skerjafirði. Með ákvörðuninni verður samkomulagi ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2019 teflt í tvísýnu þar sem forsenda þess var að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar þar til nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.
Reykjavíkurflugvöllur sinnir mikilvægu hlutverki og er lífæð landsbyggðanna. Með uppbyggingu í Skerjafirði gæti öryggi landsbyggðanna verið ógnað gagnvart sjúkraflugi og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem og aðgengi almennings, atvinnulífi og stjórnsýslu að mikilvægum innviðum.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja skorar á borgarstjórn að fresta byggingaráformum og virða í hvívetna samkomulag ríkis og borgar frá 2019 þar til framtíðarlausn innanlandsflugs er tryggð.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst