Mikil gróska hefur verið í þroskuðum handknattleik í Vestmannaeyjum undanfarnar vikur og lætur kvenþjóðin ekki sitt eftir liggja í þeim efnum. Markvissar æfingar hafa verið í vetur undir harðri stjórn Unnar Sigmarsdóttur og hafa þar fyrrum stórstjörnur kvenhandboltans á borð við Vigdísi Sigurðardóttur, Ingibjörgu Jónsdóttur, Kötu Harðar og stórskyttuna Andreu Atladóttur ásamt fleiri yngri leikmönnum verið að leggja unglingaflokk kvenna í hverjum æfingaleiknum á fætur öðrum sem einmitt er stjórnað af Svavari Vignissyni leikmanni b) liðs ÍBV karla (en hann sækir fast að titlinum flest kg/cm í þeim hópi enda er hann liðsmaður tveggja ÍBV liða í bikarkeppninni). Það þykir því vart fréttaefni ólíkt því sem gerist hjá karlaliðinu að kenna ungviðinu lexíu eða tvær.