Í umræðu um þriggja ára fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar hefur vakið athygli áform um að færa bókasafn bæjarins í íþróttahúsið. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, segir hugmyndina vera hluta af langtímafjárfestingaáætlun bæjarins og unnið hafi verið að henni í þverpólitískum hópi á vegum bæjarráðs.
„Þetta er hluti af vinnu vegna fjárfestinga næstu ára og þess vegna er verkefnið inni í langtímaáætlun. Farið var yfir þetta við seinni umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn í lok nóvember,“ segir Íris. Áformin fela ekki í sér nýtt bókasafn heldur flutning á núverandi safni. „Um sama bókasafn er að ræða – þetta er ekki nýtt safn,“ undirstrikar hún.

Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að bókasafnið flytji í nýja tengibyggingu eða anddyri íþróttahússins, á annarri hæð viðbyggingar. Núverandi húsnæði bókasafnsins myndi þá taka á sig nýtt hlutverk.
„Áætlað er að núverandi salur bókasafnsins verði menningarsalur fyrir sveitarfélagið,“ segir Íris. Hún bætir við að stærð nýja rýmisins í íþróttahúsinu verði svipuð og nú er, eða um 300–350 fermetrar. Núverandi bókasafn er rúmlega 300 fermetrar.
Viðbyggingin við íþróttahúsið, sem mun hýsa bókasafnið ásamt nýju anddyri og tengingum við aðra hluta hússins, er áætluð á árunum 2028–2029. Samkvæmt samþykktri þriggja ára áætlun er kostnaður við bygginguna áætlaður 650 milljónir króna.
Spurð um ástæðuna fyrir því að færa bókasafnið í íþróttahúsið segir Íris markmiðið vera að efla húsið sem samkomu- og þjónustustað. „Þetta er hugsað til að efla íþróttahúsið sem stað sem börn og fullorðnir sækja, hafa þar meira af afþreyingu í boði og færa bókasafnið nær þeim sem nýta húsið. Vonin er sú að fleiri sæki safnið,“ segir hún.
Einnig hefur verið rætt um framkvæmdir við Hamarsskóla, þar sem gert er ráð fyrir stækkun samkvæmt tillögu skólastjóra. Þar er þó ekki um stækkun bókasafns að ræða. „Þetta snýst um að byggja fjölnotasal sem nýtist sem matsalur, bókasafn og hátíðarsalur fyrir skólann,“ útskýrir Íris.
Hún tekur skýrt fram að ekki standi til að fjölga bókasöfnum í sveitarfélaginu. „Það verða áfram þrjú bókasöfn – aðalsafnið og skólabókasöfn í Hamarsskóla og Barnaskóla. Skólabókasöfn eru nauðsynleg og ekki stendur til að draga úr þeim rekstri.“
Rekstur bókasafnsins mun að sögn Írisar ekki aukast við flutninginn. „Þetta er einfaldlega tilfærsla á fjármagni. Reiknað er með sama rekstrarframlagi og nú er til safnsins.“





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst