Aukin harka hefur færst í hópamyndanir ungmenna á Selfossi og eru ungmenni á elsta stigi í grunnskóla farin að ganga með vopn í auknum mæli. Frá þessu greinir Sunnlenska.is.
Í samtali við miðilinn segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi, lögregluna líta aukinn vopnaburð ungmenna mjög alvarlegum augum og að það liggi fyrir að með ört stækkandi samfélagi þurfi að auka forvarnir tengdar þessum málaflokki.
„Við deilum áhyggjum með öðrum lögregluembættum varðandi hnífaburð ungmenna en það virðist vera hröð aukning í þeim málaflokki og þarf ekki að hafa um það mörg orð hversu alvarlegt það getur verið að beita hníf gagnvart öðrum“ segir Stefán Jónsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, í samtali við Eyjafréttir og Eyjar.net.
Fylgst grannt með á Þjóðhátíð
Vegna aukingar á vopnaburði hefur verið fjölgað sérsveitarmönnum sem vinna á Þjóðhátíð. „Það verður fylgst grannt með vopnaburði og tekið hart á þeirri hegðun um Þjóðhátíðarhelgina“ segir Stefán.
„Varðandi vopnaburð ungmenna í Eyjum þá hafa komið upp tilfelli, en engu að síður teljum við þetta ekki vera vandamál og viljum við þakka það öflugu forvarnarstarfi. Samfélagslögreglumenn hafa rætt við ungmennin okkar varðandi hnífaburð, hættur því samfara og refsingar því tengdu.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst