Sigurlaug Vilbergsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún flutti til Vestmannaeyja árið 2018 og er gift Jóhanni Sigurði Þórarinssyni tölvunarfræðingi og rafeindavirkja hjá Geisla. Sigurlaug starfar hjá Fjölskyldu- og fræðslusviði í Vestmannaeyjum og er með einkarekstur í Reykjavík. Sigurlaug eða Sía eins og hún er oft kölluð á þrjá syni frá fyrra hjónabandi sem eru þeir Vilberg Andri 24 ára, starfandi leikari og tvíburarnir Ásmundur Ari og Arnþór Ingi 19 ára sem hafa báðir verið í skóla hér í Vestmannaeyjum. Jóhann á þau Þórarinn Sigurð 21 árs rafvirkja og Karítas Guðrúnu 17 ára sem er í Menntaskólanum í Kópavogi.
Eftir að Sigurlaug lauk námi í Menntaskólanum í Hamrahlíð hóf hún nám í Þroskaþjálfaskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hún árið 1995. Árið 2006 fór hún í framhaldsnám í Háskóla Íslands og tók diplómu í þroskaþjálfafræðum og hugrænni atferlismeðferð.
Í Vestmannaeyjum starfar hún á fræðslusviði sem ráðgjafarþroskaþjálfi og í Reykjavík sinnir hún þjónustu og ráðgjöf unglinga og fullorðinna með einhverfu. Þeim verkefnum hefur hún einnig sinnt hér í Eyjum undir starfsheitinu Sía Ráðgjöf, sem er ráðgjöf fyrir einhverft fólk og foreldra einhverfra barna. Áherslan er á ráðgjöf og leiðir til að eiga við vandamál sem koma fram í samspili einhverfu og umhverfis.
Ásmundur Ari, Vilberg Andri, Sigurlaug, Karitas Guðrún, Jóhann Sigurður, Arnþór Ingi og Þórarinn Sigurður.
Lengst af vann Sigurlaug hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Starfið fólst í greiningum á fötlunum barna og unglinga í samvinnu við annað fagfólk. Stór hluti starfsins fólst í ráðgjöf til foreldra og skóla fólks, fræðslu og námskeiðum um land allt. „ Í þessu starfi sérhæfði ég mig í einhverfu sem hefur alltaf verið mitt áhugasvið. Fékk tækifæri til að dýpka mig og hef ég unnið við það alveg síðan.“
Þegar Sigurlaug flytur til Vestmannaeyja hefur hún störf hjá Fjölskyldu- og fræðslusviði og sinnti ýmsum fjölbreyttum verkefnum. Í dag starfar hún einungis á fræðslusviði sem málastjóri og ráðgjafi fyrir börn, foreldra og skólafólk.
Meðfram vinnunni í Eyjum starfar Sigurlaug í Reykjavík. Þar leigir hún stofu í húsi Sjónarhóls á Háaleitisbraut 13 þar sem hún sinnir einhverfugreiningum og ráðgjöf unglinga og fullorðinna. Í sama húsi starfa einhverfu samtökin og fleiri sérfræðingar sem sinna þjónustu og ráðgjöf fyrir einhverfa, adhd og fatlaða. „Þetta er einskonar samfélag sem ég græði mikið á þar sem ýmiskonar velferðarþjónusta fyrir þessa hópa er á staðnum.“
Ráðgjöf á einhverfu byggist mikið á þekkingu en líka á reynslu „Það hefur skipt mig miklu máli eftir að ég flutti til Eyja að halda í þessi tengsl og þennan hluta af starfinu og hafa möguleikann á að fara á milli staða. Ég hef náð að halda í mína fagþekkingu, sem ég tel mikilvægt. Ég tel mig líka eiga erindi í þetta með minni persónulegu reynslu og þekkingu. Á sama tíma og ég er mjög ánægð með vinnuna í Reykjavík er ég mjög þakklát fyrir vinnuna mína í Eyjum og þar sinni ég annarskonar verkefnum og viðheld þeim þætti að geta unnið með skólafólki, börnum og foreldrum.“
Á undanförnum árum hefur einhverfu samfélagið farið stækkandi og einhverfir sjálfir orðnir miklir talsmenn og fræðimenn. Vakning í þessum málum hefur verið mikil, minni fordómar og meiri sýnileiki. Einhverfir í dag eru allskonar. Einhverfa.is er með frábært fræðslu efni, myndbönd og jafningjafræðslu fyrir alla. Þar starfar einhverft fólk sem miðlar áfram þekkingu til einhverfra. Einhugur er mjög öflugt einhverfu samfélag sem er starfandi í Eyjum. Sigurlaug er meðlimur í Einhug og hafa þau reglulega fengið ýmiskonar fræðslu.
Sigurlaug segir að á þessu sviði eins og á svo mörgum öðrum vanti úrræði, fólk, pláss og pening. En það sem skipti mestu máli séu viðhorfin í starfi og gagnkvæm virðing. „Vinna í velferðarmálum er snúin en á sama tíma finnst mér að fólk sem vinnur með fólk séu mjög sterkir einstaklingar sem láta sig málin varða og eru ekki að gera hlutina nema af góðum hug og virðingu. Þetta eru svo mikilvæg störf fyrir allt samfélagið“.
Fræðsluefni:
Facebook: Einhugur
Samgöngur í Vestmannaeyjum geta verið til ama en Sigurlaug upplifir sig samt sem áður aldrei fasta. Segir hún að hér sé margt hægt að gera sem hún hefði ekki trúað til að byrja með og á faglegum nótum segist hún upplifa mikla jákvæðni og bjartsýni.
Þótt Sigurlaug sé mikið á milli staða segir hún Eyjarnar sitt heimili þar sem henni líði mjög vel og þakklát að fá tækifæri til að vinna og um leið kynnast mörgum og mjög góðu fólki. „Ég er mjög þakklát fyrir samstarfsfólkið mitt, vini og fjölskyldu hér í Eyjum. Mér finnst mikilvægt að kynnast samfélaginu á mínum forsendum og eignast vini og kunningja á eigin vegum. Ég er ánægð með viðmótið sem ég hef fengið og þakklát fyrir hversu vel hefur gengið. Mér finnst samfélagið hér gott og kröftugt. Lifandi samfélag þar sem gott er að búa“ segir Sigurlaug að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst