Nýtt skip okkar Eyjamanna kom heim til Vestmannaeyja þann 15. júní síðastliðinn. Síðustu daga hefur verið unnið að því gera skipið klárt fyrir rekstur svo hægt verði að sigla því á milli lands og Eyja. Blaðamaður Eyjafrétta fór á dögunum og kíkti um borð og tók smá spjall við Ívar Torfason einn af skipstjórum Herjólfs.
Aðspurður um megin muninn á skipunum að hans mati sagði hann að flutningsgetan væri miklu meiri á nýja skipinu. „Aðal munurinn er að við getum flutt fleiri farþega og fleiri bíla á milli í hverri ferð. Rekstrarkostnaðurinn ætti að verða töluvert lægri á nýja skipinu, því það er að hluta til keyrt á rafmagni og við þurfum þar með ekki að brenna eins mikilli olíu. Svo er þetta skip hannað til þess að sigla inn í Landeyjahöfn við þær aðstæður sem eru þar,“ sagði Ívar sem lýst mjög vel á skipið.
Ég hef miklar væntingar til þessa skips
„Mér lýst mjög vel á skipið og það er gríðarlega spennandi fyrir mann í minni stöðu að fá svona tæki í hendurnar og fá að stýra því. Búnaðurinn er mjög góður og það hefur verið vandað vel til verka við valið á öllum tækjabúnaði. Við erum núna að læra á skipið og tileinka okkur það sem það hefur uppá að bjóða því þetta er ekkert líkt gamla skipinu á nokkurn hátt. Ég hef miklar væntingar til þessa skips,“ sagði Ívar.
Skip velta í vondu veðri
Aðspurður um siglingar til Þorlákshafnar á veturna þegar veðrið er vont sagði Ívar að það þyrfti reynslan að leiða í ljós. „Við höfum ekki farið í svoleiðis aðstæður enn sem komið er og það er ekki hægt að fá mynd af því fyrr en það gefst reynsla í slíku veðri. Skip velta í vondu veðri, gamli Herjólfur gerir það og það mun þessi líka gera, þar er enginn undankomu leið þar,“ sagði Ívar.
Á leiðinni heim frá Póllandi kom smá bræla á einum kaflanum, þegar blaðamaður spurði út í það sagði Ívar að menn hefðu verið við öllu viðbúnir en að skipið hefði komið á óvart og það hefði varið betra en menn bjuggust við.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst