Það er mikilsvert að bæjarbúar – ekki síst unga fólkið – láti sér annt um bæinn sinn og veki máls á því sem þeim þykir að betur mætti fara. Mér þótti það því sérstakt gleðiefni að sjá ungan og duglegan mann sem ég kannast ágætlega við, Jóhann Inga Óskarsson, kveða sér hljóðs í bæjarmiðlunum – ekki einu sinni heldur tvisvar um bæjarmálin. Það er rétt sem hann segir að opinber umræða um þessi málefni mætti vera miklu meiri – og við sem erum kjörnir fulltrúar mættum standa okkur mun betur í þeim efnum en raun ber vitni.
Að því sögðu þykir mér bæði rétt og skylt að bregðast efnislega við nokkrum þeim atriðum sem Jóhann Ingi nefnir og beinir til bæjarstjórnar.
Athugasemdir: Þennan hluta af grein Jóhanns Inga er skemmtilegast að ræða. Hér þarf vel stætt og skuldlaust sveitarfélag að svara lúxusspurningunni: Hvort eru fjármunir bæjarbúa betur geymdir inni á bankabók eða í innviðum sem bæta líf eigendanna og tekjur þeirra til frambúðar? Rétta svarið er auðvitað: Á báðum stöðum! Og þá er bara næsta spurning: Í hvaða hlutföllum?
2018 námu heildareignir bæjarsjóðs tæplega 13 milljörðum króna; fastafjármunir tæpir 10 milljarðar og handbært fé rúmlega 3 milljarðar.
2024 voru heildareignirnar komnar í tæplega 18 milljarða; fastafjármunir tæpir 16 milljarðar og handbært fé tæpir 2 milljarðar.
Stærsta skýringin á mismuninum á handbæru fé milli þessara ára er að bæjarsjóður ‘’lánaði sjálfum sér’’, eða eignarhaldsfélaginu Eygló í hans eigu’’, rúmlega 700 milljónir til að leggja ljósleiðarakerfi í bænum þannig að háhraða nettengingar stæðu öllum bæjarbúum til boða. Öll fjarskiptafyrirtækin á Íslandi höfðu hafnað því að gera þetta fyrir eiginn reikning – en auðvitað er þetta lykilatriði í því að gera Vestmannaeyjar samkeppnishæfan búsetukost fyrir ungt fólk til framtíðar. Þannig var hluta af peningunum á bankabókinni breytt í háhraða ljósleiðaratengingu fyrir bæjarbúa. Og sagan er ekki öll því með sölunni á Eygló til Mílu fyrir nokkrum mánuðum fyrir rúmlega 700 milljónir koma peningarnir aftur inn í bæjarsjóð og hægt að nota þá ‘’aftur’’ til enn frekari innviðauppbyggingar eða geyma þá inni á bankabókinni – ef menn vilja það frekar.
Þetta er líklega ábatasamasta fjárfesting sem ég hef tekið þátt í – hvortheldur sem einstaklingur, stjórnandi fyrirtækja bæði í einkaeigu og opinberri – eða sem bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum. Þessum fjármunum var sannarlega ekki ‘’eytt’’ eins og Jóhann Ingi kallar það í grein sinni.
Athugasemd: Í grein sinn valdi Jóhann Ingi sér árið 2018 sem nokkurs konar upphafspunkt og ágætt að halda sig við það. Íbúum í Vestmannaeyjum hefur frá því ári fjölgað um tæplega 600 og eru nú 4,780 og hafa ekki verið fleiri síðan um 2001. Og þetta þýðir auðvitað, sem betur fer, að börnunum hefur fjölgað líka. Til að mæta því hefur leikskólaplásum verið fjölgað um tæplega 60 frá 2019, eða um 25%.
Hvaðan í veröldinni kemur Jóhanni Inga sú ‘’vitneskja’’ að leikskólaplássum hafi ‘’ekki fjölgað í tugi ára’’?
Þessu til viðbótar er svo gert ráð fyrir að í tengslum við nýtt íbúðahverfi í Löngulág rísi nýr 6-8 deilda leikskóli þar sem verður rými fyrir a.m.k. rúmlega 100 börn. Hafist verður handa við hönnun nýja leikskólans á næsta ári, eins og bæjarstjórn samþykkti nýverið í fjárhagsáætlun fyrir 2026.
Athugasemd: Þetta er auðvitað hárrétt hjá Jóhanni Inga. Enda vill hann varla að bæjaryfirvöld séu að standa í því að stofna fyritæki og skapa atvinnutækifæri? Fullmikill kommúnismi fyrir hann myndi ég ætla. Það sem bæjaryfirvöld geta hins vegar gert er að róa með framtakssömum einstaklingum; skapa þeim eins góðar aðstæður og unnt er og liðka fyrir þeim með skjóta og örugga fyrirgreiðslu í öllu því sem snýr að opinberum aðilum. Nákvæmlega það hefur Vestmannaeyjabær gert gagnvart Laxey – og forsvarsmenn á þeim bæ munu örugglega staðfesta það hvar og hvenær sem er. Hafa reyndar margsinnis gert það og við ýmis tilefni sagt að framganga og stuðningur bæjaryfirvalda við verkefnið hafi verið einn af lykilþáttunum í því hvað þetta hefur gengið hratt og vel.
Athugasemd: Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að nú hafa fengist þrír öflugir einstaklingar til starfa í nýju eftirskólaúrræði fyrir nemendur með fatlanir. Gert er ráð fyrir að starfsemin geti hafist strax í næstu viku og þjónustan verður aðlöguð að þörfum hvers og eins nemanda.
Alltaf eru einhver börn á biðlista enda tekið inn af honum á inntökutímabilum eftir aldri. Núna eru 8 börn á biðlista miðað við að þau verði orðin tólf mánaða gömul um áramót.
Athugasemd: Hér erum við komin að mjög athyglisverðu álitaefni sem er tekjutenging heimgreiðslna. Allir bæjarfulltrúar voru sammála um hvaða heildarupphæð væri réttmætt að setja í þennan málaflokk. Meirihlutinn vildi tekjutengja en minnihlutinn ekki.
Það sem af er þessu ári hafa borist 27 umsóknir; 15 verið samþykktar, nokkrar eru á vinnslustigi en 7 verið hafnað vegna of hárra tekna. Þar var um að ræða ráðstöfunartekjur upp á 1,1 – 2,1 milljónir á mánuði.
Afnám tekjutengingar þýddi þá, miðað við óbreytta heildarfjárhæð, að heimgreiðsla til þeirra sem væru með t.d. 500 þúsund í ráðstöfunartekjur yrði lækkuð til að þau sem væru með 2 milljónir gætu fengið það sama. Á þessu getur fólk haft hvaða skoðun sem er – en þetta vildi meirihlutinn ekki og því eru þessar greiðslur tekjutengdar.
Að lokum þetta: Þótt ég hafi ýmislegt efnislega að athuga við greinar Jóhanns Inga Óskarssonar er ég honum þakklátur fyrir hans innlegg í umræðuna – og gefa mér þannig tækifæri til að reifa ýmislegt sem sannarlega er ástæða til að að ræða.
Meira af þessu!
Páll Magnússon
Höfundur er forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.