
Stjórn Náttúrustofu Suðurlands auglýsti fyrir nokkru stöðu forstöðumanns Náttúrustofu Suðurlands lausa til umsóknar. Alls sóttu fjórir einstaklingar um starfið, allt karlar. Eftir mat á umsækjendum hefur stjórn Náttúrustofunnar ákveðið að ráða Erp Snæ Hansen til að gegna stöðunni. Erpur Snær er líffræðingur að mennt. Hann lauk BS prófi í líffræði við Háskóla Íslands árið 1993, viðbótarári í sömu fræðum við Háskóla Íslands árið 1995, meistaragráðu í líffræði frá University of Missouri í Bandaríkjunum 1998 og doktorsprófi (Ph.D.) í líffræði frá sama skóla í Bandaríkjunum árið 2003.
Erpur Snær hefur starfað á Náttúrustofu Suðurlands allt frá árinu 2007, lengst af sem sviðsstjóri vistfræðirannsókna. Síðustu 12 mánuði hefur hann gegnt starfi forstöðumanns stofunnar eftir að forveri hans lét af störfum 1. mars 2018. Auk þess hefur Erpur Snær gegnt ýmsum hliðarstörfum, t.d. sem fulltrúi Íslands í starfshópi sjófuglasérfræðinga á vegum Norðurheimskautsráðsins og sem aðal- og meðleiðbeinandi fjölda mastersnema í líffræði. Þá hefur Erpur Snær ritað fjölda vísindagreina, stjórnað mörgum rannsóknum, sérstaklega á sviði sjófugla, og haldið fjölmörg erindi á sínu fræðasviði.