Á dögunum kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð þar sem kröfu kærenda er hafnað um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Til stendur að reisa þar fjölbýlishús ofan á það hús sem fyrir er.
Forsaga málsins er sú að frá árinu 2022 hafa íbúar í nágrenni Strandvegar 51 mótmælt þeim hluta framkvæmdarinnar sem snýr að bílastæðum.
Í bréfi sem íbúar í nágrenninu sendu kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn og skipulagsráði í byrjun árs segir m.a.: „Enn einu sinni upplifum við okkur hlunnfarin og sjónarmið okkar látin lönd og leið. Við höfum óskað eftir samtali við fulltrúa bæjarins ásamt byggingaraðila án þess að vera litin viðlits, sjónarmið okkar hunsuð og málið rekið áfram eins og enginn sé morgundagurinn.“
Þessu tengt: Breytt skipulag staðfest þrátt fyrir mótmæli nágranna
Þá segir í bréfinu: „Megum við benda ykkur á að ákvarðanir ykkar eru ekki eingöngu ætlaðar þeim sem munu búa í húsinu í nánustu framtíð. Ef að líkum lætur mun húsið standa löngu eftir að allir þeir sem um málið hafa fjallað verða komnir undir græna torfu. Það er mikilvægt að vanda til verka með þarfir komandi kynslóða í huga.
Í nágrenni Strandvegs 51 eru fyrirtæki sem stóla á gott aðgengi og næg bílastæði. Má ég minna á að á Herjólfsgötunni er hótel sem mun án nokkurs vafa finna fyrir vandræðum fyrir sína gesti þegar bílastæði eru annars vegar.
Að láta sér detta í hug leigja bílastæða við Hvíta húsið til nokkurra ára. Og hvað svo? Eiga þá væntanlegir kaupendur eða eigendur íbúða í húsinu ekki að eiga aðgang að stæðum lengur? Munu eignir þeirra falla í verði vegna þessarar vitleysu? Hver verður ábyrgð sveitarfélagsins þegar að þessu kemur? Detti komandi bæjarstjórn í hug að selja Hvíta Húsið mun það þá falla í verði? Er þessi gjörningur yfir höfuð leyfilegur samkvæmt lögum?“ segir í bréfinu.
Hallgrímur Rögnvaldsson sem er einn íbúa í grenndinni segir að hann hafi rætt þessi mál við einstaka bæjarfulltrúa og fulltrúa í byggingarnefnd sem koma af fjöllum og vita almennt ekkert um hvað málið snýst.
„Er því virkilega þannig farið í stjórnkerfi okkar og valdir góðkunningjar geti farið sínu fram eins og þeim sýnist með góðri aðstoða vina í stjórnunarstöðum? Sé svo, er það nýtt met í frekju og yfirgangi eða, eru þetta kannski viðtekin vinnubrögð?
Það má vel vera að ykkur þyki það mikil frekja að vilja hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi. Finnst ykkur ekkert merkilegt við það að fjöldi íbúa í nágrenni væntanlegrar byggingar skuli rísa upp og láta í sér heyra? Má ég líka benda ykkur á að þeir eru líka til sem styðja okkur heilshugar en þora ekki fram, hræddir við að styggja ykkur. Finnst ykkur eðlilegt að búa í samfélagi þar sem íbúarnir eru hræddir við að tjá skoðanir sínar við ykkur? Er kannski kominn tími til þess að þið sem stjórnið farið að horfa inná við og viðurkenna að eitthvað sé ekki eins og það á að vera í ykkur daglegu athöfnum?
Stærri byggðarlög eins og Reykjavík hafa þurft að ganga um grýttan stíg vegna heimskulegra ákvarðana byggingarnefndar. Það hlýtur að vera vilji kjörinna fulltrúa að gera hlutina í sátt við íbúana eða er það ekki? Margoft höfum við sem í þessu stappi stöndum rétt út sáttarhönd og beðið um að fá fund með viðkomandi og byggingarnefnd en ekki virt viðlits. Flott stjórnsýsla ekki satt?“ segir í niðurlagi bréfsins.
Hallgrímur segir í samtali við Eyjafréttir í dag að hann og flestir hans nágranna séu fyrst og síðast sorgmæddir yfir þeim vinnubrögðum sem einkennt hafi þetta mál hjá bæjaryfirvöldum. Hann segir að það sé kannski ekki úr háum stól að detta og því sé hann tilbúinn að tjá sig opinskátt um sína upplifun af málinu og vinnubrögðunum.
„Við vorum að biðja þetta fólk um áheyrn. Fá að hitta þau og koma okkar sjónarmiðum á framfæri á fundi. Oft má leysa ágreiningsmál með að ræða sig niður á niðurstöðu. Það var ekki hægt. Við sem undir þetta bréf skrifum ekkert á móti húsinu sem slíku en við horfum á það hvernig aðilar eins og Sigurjón Ingvars, Steini og Olli og fleiri standa með miklum glæsibrag að bílastæðamálum í nýbyggingum sínum.
Enn fremur finnst okkur sorglegt að fólk sem er kosið til forystu fyrir samfélagið og á að hlúa að íbúum þess skuli frekar kjósa að snobba fyrir þeim sem hafa mikið milli handanna en sýna okkur hinum lítinn áhuga, komi fram við okkur með hroka og yfirlæti og tali niður til þeirra sem til þeirra leita. Þegar kemur að kosningum skiptir ekki máli hvar í goggunarröð bæjarstjórans fólk stendur. Allir hafa eitt atkvæði, þá eru allir jafnir. Kannski hafa þeir sem upplifað hafa það sem ég segi hér á undan það í huga þegar þeir munda blýantinn og setja sinn kross á seðilinn. Á kjördag eru allir jafnir,” segir Hallgrímur að lokum.
Sjá einnig: Tillaga að breyttu deiliskipulagi að Strandvegi 51 samþykkt
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst