Kvennalið ÍBV í handbolta tók á móti Stjörnunni í þriðju umferð Olís deildar kvenna í Eyjum í dag. Leiknum lauk með 31-27 heimasigri ÍBV. Eyjakonur voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik og voru þremur mörkum yfir þegar um 15 mínútur voru búnar. Stjörnukonur náðu hins vegar að jafna leikinn þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Eyjakonur fóru með eins marks forystu í hálfleikinn, 16-15.
Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri og komust Eyjakonur mest fjórum mörkum yfir. Stjörnukonur gáfust ekki upp og þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum var allt orðið jafnt 23-23. Lokamínúturnar voru spennandi en Eyjakonur gáfu í á lokakafla leiksins og unnu mikilvægan 31-27 sigur.
Amalia Frøland var með 14 skot varin og Ólöf Maren Bjarnadóttir eitt skot. Alexandra Ósk Viktorsdóttir var markahæst í liði ÍBV með 7 mörk. Natasja Hammer var markahæst í leiknum með 8 mörk. Eftir þrjár umferðir eru Eyjakonur í þriðja sæti með 4 stig. Stjörnukonur eru stigalausar í sjöunda sæti.
Mörk ÍBV: Alexandra Ósk Viktorsdóttir 7 mörk, Amelía Dís Einarsdóttir 6, Ásdís Halla Hjarðar 6, Birna Berg Haraldsdóttir 6, Sandra Erlingsdóttir 3, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1, Birna Dís Sigurðardóttir 1, Britney Emilie Florianne Cots 1.
ÍBV fær Selfoss í heimsókn miðvikudaginn 1. október kl. 18:30.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst