ÍBV tryggði sér sæti í úrslitaleik Borgunarbikars karla þegar liðið sigraði Stjörnuna á útivelli í kvöld, lokastaða 1:2. Stjörnumenn komust yfir á 60. mínútu leiksins en þar var að verki Hilmar Árni Halldórsson. Hafsteinn Briem jafnaði hins vegar metin skömmu seinna eftir undirbúning Kaj Leo í Bartalsstovu. Á 73. mínútu var Færeyingurinn aftur á ferðinni og innsiglaði sigur Eyjamanna eftir góða skyndisókn.