Karlalið ÍBV vann góðan 2-0 heimasigur á ÍA í 21. umferð Bestu deildar karla í dag í blíðskaparveðri. Eyjamenn voru töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náðu þó ekki að skapa sér hrein dauðafæri. Mikið var um hornspyrnur og fyrirgjafir sem þeir náðu ekki að nýta. Staðan 0-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var svipaður og fyrri frekar bragðdaufur en það voru Eyjamenn sem tóku yfirhöndina um miðjan hálfleikinn. Oliver Heiðarsson átti þá góða fyrirgjöf frá hægri vængnum á Þorlák Breka Baxter sem stangaði boltann í netið. 1-0 fyrir ÍBV. Gísli Laxdal Unnarsson fékk fínt færi til að jafna leikinn fyrir Skagamenn en Marcel í marki Eyjamanna sá við honum. Þegar komið var í uppbótartíma uppskáru Eyjamenn vítaspyrnu þegar Hermann Þór Ragnarsson var tekinn niður inn í teig Skagamanna. Varamaðurinn Sverrir Páll Hjaltested steig á punktinn og skoraði af öryggi. Lokatölur 2-0 fyrir ÍBV og mikilvægur sigur í höfn.
Eftir leikinn sitja Eyjamenn í sjötta sæti með 28 stig og eru komnir í efri hluta deildarinnar. Skagamenn eru lang neðstir með 16 stig.
Nú tekur við landsleikjapása og því er næsti leikur ÍBV ekki fyrr en mánudaginn 15. september en þá taka þeir á móti Breiðablik á Kópavogsvelli kl. 18:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst