Karlalið ÍBV tryggði veru sína í efstu deild eftir 0-5 stórsigur á Vestra í 24. umferð Bestu deildar karla. Leikið var á Ísafirði í dag.
Eyjamenn náðu forystu snemma leiks þegar Sigurður Arnar Magnússon skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu Alex Freys Hilmarsonar. Vestramenn voru meira með boltann á meðan Eyjamenn voru þéttir og beittu skyndisóknum. Á lokamínútum fyrri hálfleiks gengu Eyjamenn á lagið og bættu við þremur mörkum fyrir hálfleiksflautið. Hermann Þór Ragnarsson kom ÍBV í 0-2 á 41. mínútu þegar hann komst inn í sendingu ætlaða Guy Smith og kláraði örugglega framhjá honum. Þremur mínútum síðar bætti hann öðru marki sínu við eftir sendingu Olivers Heiðarssonar. Oliver setti svo fjórða mark ÍBV eftir frábæran undirbúning Hermanns Þórs Ragnarssonar. Staðan 0-4 í hálfleik og leikurinn svo gott sem búinn.
Vestramenn komu beittir inn í síðari hálfleik en náðu ekki að setja mark sitt á leikinn. Hermann Þór Ragnarsson fullkomnaði þrennu sína og innsiglaði sigur Eyjamanna þegar fimm mínútur voru til leiksloka þegar hann kom boltanum í netið eftir sendingu Þorláks Breka Baxter. Lokatölur 0-5 og Eyjamenn spila áfram í Bestu deildinni að ári.
Eyjamenn eru komnir með 33 stig og sitja í sjöunda sæti. KA eru með 32 stig en þeir eiga leik til góða og geta með sigri komist yfir Eyjamenn þegar þeir mæta Aftureldingu kl. 16:00. Vestramenn eru með 27 stig í tíunda sæti.
Eyjamenn fá Skagamenn í heimsókn laugardaginn 4. október kl. 14:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst