Karlalið ÍBV í handbolta tapaði naumlega með einu marki gegn Selfossi í fimmtu umferð Olís deildar karla á Selfossi í kvöld.
Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en Eyjamenn tóku fljótt forystuna í leiknum. Um miðjan hálfleikinn voru Eyjamenn komnir með fjögurra marka forystu, 6-10. Mest komust þeir sex mörkum yfir en Selfyssingar náðu að minnka muninn í eitt mark fyrir hálfleiks flautið. Staðan 14-15 í hálfleik.
Selfyssingar jöfnuðu leikinn strax í upphafi seinni hálfleiks í 15-15. Selfyssingar voru með yfirhöndina í seinni hálfleik og komust fjórum mörkum yfir þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Eyjamenn náðu að jafna leikinn í 30-30 þegar aðeins 45 sekúndur voru eftir en Selfyssingar skoruðu dramatískt sigurmark á loka sekúndu leiksins. Lokatölur 31-30. Eftir fimm umferðir sitja Eyjamenn í 3. sæti með sex stig. Selfyssingar hoppuðu með sigrinum upp í 6. sæti og eru með fimm stig.
Elís Þór Aðalsteinsson var markahæstur í leiknum með tíu mörk. Petar Jokanovic var með níu skot varin og Morgan Goði Garner tvö.
Mörk ÍBV: Elís Þór Aðalsteinsson 10 mörk, Jakob Ingi Stefánsson 5, Anton Frans Sigurðsson 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 4, Sveinn José Rivera 2, Daníel Þór Ingason, Dagur Arnarsson 1, Kristófer Ísak Bárðarson 1, Róbert Sigurðsson 1.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst