Karlalið ÍBV í fótbolta spilaði gegn KR í 26. umferð Bestu deildar karla í Vesturbænum í dag. Leiknum lauk með 2-1 sigri heimamanna. Eyjamenn fengu mjög gott færi í fyrri hálfleik til að komast yfir þegar Alex Freyr Hilmarsson átti sendingu í gegn á Oliver Heiðarsson sem var kominn einn á móti markverði KR-inga en Halldór Snær sá við honum. KR-ingar komust næst því að skora í fyrri hálfleik þegar Aron Sigurðarson setti boltann í þverslánna úr aukaspyrnu. Staðan 0-0 í hálfleik.
Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fengu KR-ingar vítaspyrnu þegar Guðmundur Andri Tryggvason féll við í teignum eftir samskipti sín við Marcel Zapytowski markvörð ÍBV. Aron Sigurðarson fór á puntkinn og skoraði af öryggi. Eyjamenn voru ekki lengi að svara fyrir sig þegar Oliver Heiðarsson jafnaði í 1-1 þegar hann skoraði af stuttu færi. KR-ingar voru líklegri það sem eftir lifði leiks og komust yfir á nýjan leik þegar Eiður Gauti Sæbjörnsson skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Hjalta Sigurðssonar. 2-1 sigur KR-inga staðreynd.
Eyjamenn eru eftir leikinn í 2. sæti neðri hlutans með 33 stig. KR-ingar eru næst neðstir með 28 stig. KA gjörsigrðu ÍA 5-1 en bæði lið eru örugg með sæti sitt í deildinni. Afturelding og Vestri skildu jöfn 1-1.
Eyjamenn taka á móti KA í lokaumferðinni sem fer fram laugardaginn 25. október kl. 14:00. Hægt er að sjá stöðuna í neðri hlutanum fyrir lokaumferðina hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst