Á aðalfundi Eyjasýnar ehf. í maí sl. var kosin ný stjórn og í henni sitja Guðmundur Jóhann Árnason, Sigurbergur Ármannsson og Sara Sjöfn Grettisdóttir. Í varastjórn eru Ólafur Elísson og Helga Kristín Kolbeins. Guðmundur er verkefnisstjóri mannauðs- samfélags- og umhverfismála hjá Ísfélaginu. Sigurbergur er útgerðarstjóri Bylgju VE og Sara Sjöfn, eigandi Póleyjar þekkir vel til á Eyjafréttum eftir að hafa starfað þar sem blaðamaður og ritstjóri. Mikill fengur er að fá Ólaf inn í stjórnina með þá þekkingu sem hann hefur í viðskiptalífinu og Helga Kristín er skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum sem gefur stjórninni víðari sjóndeildarhring. Í fráfarandi stjórn voru Trausti Hjaltason, Gígja Óskarsdóttir og Kári Bjarnason sem hafa leitt starfið á miklum umbrotatímum í sögu Eyjasýnar. Er þeim þökkuð góð störf fyrir félagið.
Öflugur liðsauki á ritstjórn
Eyjafréttum hefur bæst góður liðsauki. Ekki þarf að kynna Guðna Einarsson fyrir lesendum Eyjafrétta. Hann hefur verið ein af stoðum útgáfunnar síðustu ár og heldur því áfram. Ásmundur Friðriksson, fyrrum alþingismaður og rithöfundur hefur komið sterkur inn og nýjasta viðbótin eru Kristín Erna Sigurlásdóttir og Tryggvi Guðmundsson en þau halda utan um íþróttaumfjöllun í miðlum Eyjasýnar. Eru þau boðin velkomin til starfa. Þá stendur Margrét Rós Ingólfsdóttir áfram vaktina í próförkinni og Óskar Pétur á bak við myndavélina. Annika Vignisdóttir hefur vaxið í starfi og er í dag aðstoðarritstjóri. Nýtt fólk, Annika ásamt þeim gömlu, ritstjórunum Ómari Garðarssyni og Tryggva Má Sæmundssyni skipa þéttan hóp sem skilar öflugum miðlum, Eyjafréttum og eyjafrettir.is sem hafa þann eina tilgang að þjóna Eyjafólki og öðrum sem áhuga hafa. Hlutverk sem við tökum alvarlega.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst