Fjórtándu Eyjatónleikarnir verða haldnir í Eldborg í Hörpu laugardagskvöldið 25. janúar þar sem söngvararnir Klara Elías, Sigga Beinteins, Magnús Kjartan, Bjartmar, Eló, Sæþór Vídó, Kristín Halldórs, Matti Matt og Guðný Elísabet Tórshamar koma fram. „Magni forfallaðist sökum veikinda og var Matti Matt svo elskulegur að taka hans hlutverk. Hljómsveitarstjóri er Þórir Úlfarsson sem hefur verið með okkur í 10 ár,“ segir Bjarni Ólafur Guðmundsson sem hefur staðið fyrir tónleikunum ásamt Guðrúnu Mary Ólafsdóttur, eiginkonu sinni frá upphafi.
„Undirbúningur hefur gengið vel en miðasala hefur verið mun hægari en oft áður en miðasala almennt hefur verið að færast nær tónleikadegi. Þannig að við erum enn bjartsýn enda um einstakan viðburð að ræða. Eyjatónleikar í Hörpu eru svo sannarlega frábær leið til að upplifa sanna Eyjastemningu. Einnig er þetta algjörlega einstök leið til að hitta mikið af gömlu góðu Eyjafólki sem býr um allt land. Risastórt ættarmót Eyjamanna,“ segir Bjarni Ólafur.
Látum fylgja nokkrar myndir sem Óskar Pétur, sem myndað hefur tónleikana frá upphafi hefur tekið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst