Fáir þekkja viðskiptavini sína betur en útibúið hér í Eyjum
Öflugur hópur. Mynd: Óskar Pétur.

Margir kannast við auknar kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja, svo sem um að þekkja viðskiptavini sína. „En á fáum stöðum þekkir Íslandsbanki viðskiptavini sína betur en hér í Eyjum,“ segir Sigursteinn Bjarni Leifsson, útibússtjóri Íslandsbanka.

„Við búum vel að eiga í nánu og góðu sambandi við viðskiptavini hér í Eyjum þar sem rætur bankans liggja djúpt. Hér hafa Íslandsbanki og forverar hans verið með starfsemi og stutt við atvinnulíf og uppbyggingu allt frá því fyrsta útibú Íslandsbanka og forvera hans, opnaði í Vestmannaeyjum 1919.“ Saga bankans og ekki síst útibúsins í Vestmannaeyjum er samofin sjávarútvegi. Bankinn hefur stutt við sjávarútveginn í uppgangi sem og á erfiðum tímum. Þarna koma við sögu Fiskveiðisjóður Íslands og Útvegsbanki Íslands, auk bankasameiningar 1990 og síðari tíma vendingar. En þráðurinn í útibúinu í Vestmannaeyjum er óslitinn.

„Hér leggur starfsfólk sig fram um að veita góða þjónustu og það skilar sér í ánægju viðskiptavina, líkt og mælingar sýna okkur. Útibú bankans í Eyjum hefur verið leiðandi með mestu markaðshlutdeildina á meðal fyrirtækja og hæstu einkunn í þjónustumælingum.“

Tímamót með flutningi 2021

Tryggð viðskiptavina við bankann er líka mikil. „Hér erum við með viðskiptavini sem eiga sögu aftur í forvera okkar, allt frá því þetta var Útvegsbankinn.“ Reyndar var bankinn lengi við Kirkjuveg í því húsnæði sem Útvegsbankinn flutti sig í 1952. Breytingar urðu svo snemmsumars 2021 þegar núverandi útibú opnaði á Strandvegi 26. „Þetta er nútímalegra húsnæði og betur sniðið að þörfum starfseminnar,“ segir Sigursteinn.

Í útibúinu í Vestmannaeyjum veitir Íslandsbanki alla almenna bankaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki, auk þess að njóta stuðnings þeirra deilda bankans sem sinna fjárfestum og stærri fyrirtækjum. Fyrir utan almenna bankaþjónustu til einstaklinga segir Sigursteinn þjónustu bankans tengjast sjávarútvegi mikið. „Og þó að fyrirtæki séu kannski ekki beint í sjávarútvegi þá þjónusta þau hann mörg með einum eða öðrum hætti.“

Eins hefur verið uppgangur í ferðatengdri þjónustu, en Sigursteinn segir að henni fylgi vissulega áskoranir af því hversu árstíðabundin þau viðskipti séu. „Þetta byggist allt á að Herjólfur sigli í Landeyjahöfn og þegar hann gerir það ekki þá dettur ferðamannastraumurinn niður.“ Þá skipti máli að fjármálafyrirtæki skilji og taki tillit til aðstæðna.

Innspýting fylgir landeldinu

„Svo er laxinn náttúrulega að koma sterkur inn með uppbyggingu Laxeyjar á landeldi hér í Eyjum og mörg fyrirtæki sem koma að þeirri uppbyggingu.“ Því séu spennandi tímar framundan og Íslandsbanki tilbúinn til að aðstoða við alla uppbyggingu. Sigursteinn hefur nú starfað í útibúinu í rúmlega tíu ár, en tók við sem útibússtjóri í september 2023. Hann þekkir því vel til starfseminnar, segir starfsandann góðan og samstarfsfólkið frábært. Núna eru í útibúinu átta stöðugildi tengd bankastarfseminni sem og eitt stöðugildi tengt mötuneyti og þrifum, sem er nokkur fækkun frá því sem áður var, en hún skýrist af breytingum í umhverfi bankarekstrar, meðal annars með tilkomu stafrænna lausna. En fólki líður vel hjá bankanum og sum eru með áratuga reynslu. „Hér eru þrjú sem eru með á bilinu þrjátíu til fjörutíu og fimm ára starfsaldur,“ segir Sigursteinn.

Spennandi tímar framundan

Á þessum tíma segir hann margt hafa breyst, bæði þurfi að innleiða breytingar sem gerðar séu á lögum og reglum um fjármálafyrirtæki og svo hafi innleiðing á stafrænni tækni breytt miklu. „Flutningur okkar í nýtt og minna húsnæði endurspeglar þessa þróun að einhverju marki.“

Í útibúinu er nú unnið í opnu rými og skrifstofur heyra nánast sögunni til. Lögð var áhersla á að bjóða heimilislegt umhverfi, góða hljóðvist og lýsingu. Viðskiptavinir hafa aðgang að tölvum og svo eru í útibúinu tveir hraðbankar sem eru opnir allan sólarhringinn. „Og í þeim er náttúrlega hægt að sinna öllum helstu erindum, hvort sem það er að borga reikninga, millifæra, taka út reiðufé eða hvað eina annað.“

Hvað framtíðina varðar segist Sigursteinn afar bjartsýnn fyrir hönd Vestmannaeyja. „Hér trúi ég að verði áfram blómlegt atvinnulíf og spennandi tímar þegar hér kemur þessi stóra atvinnustarfsemi í tengslum við landeldið. Svo er auðvitað nóg að gera á sumrin yfir ferðamannatímabilið og ég vildi bara óska að það tímabil væri lengra.“ Þar fyrir utan segir hann að gera megi ráð fyrir að tækniþróun í bankastarfsemi haldi áfram að vera hröð, og spennandi sé að fá að taka þátt í því. „Gervigreindin heldur örugglega áfram að setja mark sitt á þetta allt saman,“ segir hann glaðbeittur. „Við lítum hér öll björtum augum fram á veginn.“

Útibússtjórar í Eyjum

Tólf útibússtjórar hafa verið við stjórnvölin hjá Íslandsbanka í Vestmannaeyjum sé saga útibúsins rakin. Lengst starfaði fyrsti útibússtjórinn, Viggó Björnsson, í 27 ár og svo Baldur Ólafsson í 15 ár á sjötta og sjöunda áratugnum.

Viggó Björnsson 1919–1946

Bjarni Sighvatsson 1946–1953

Baldur Ólafsson 1953–1968

Ólafur Helgason 1968–1975

Halldór Guðbjarnason 1975–1980

Vilhjálmur Bjarnason 1980–1987

Aðalsteinn Sigurjónsson 1987–1997

Börkur Grímsson 1997–2003

Magnús Arnar Arngrímsson 2003–2004 Ingi Sigurðsson 2004–2014

Þórdís Úlfarsdóttir 2014–2023

Sigursteinn Bjarni Leifsson 2023

Nýjustu fréttir

Prófkjör framundan hjá sjálfstæðismönnum í Eyjum
Vara við áhrifum samgönguáætlunar
Í dag eru 53 ár frá upphafi Heimaeyjargossins
Bærinn í samstarf við Markaðsstofu Suðurlands
Alex Freyr Hilmarsson íþróttamaður Vestmannaeyja
Tvíþætt staða orkuskipta
Netöryggisfræðsla fyrir foreldra grunn- og framhaldsskólanemenda
Áskriftarkort sundlaugagesta framlengd

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.