Farsæld barna í forgrunni á Suðurlandi
Börn að leik. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að taka þátt í stofnun farsældarráðs á Suðurlandi og var bæjarstjóra falið að undirrita samstarfsyfirlýsingu fyrir hönd sveitarfélagsins.

Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi stofnunar farsældarráðs á Suðurlandi í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Stefnt er að því að samstarfsaðilar skrifi undir samstarfsyfirlýsingu á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) á Kirkjubæjarklaustri þann 23. október næstkomandi.

Farsældarráð Suðurlands verður svæðisbundinn samráðsvettvangur þjónustuaðila sem bera ábyrgð á þjónustu við börn og fjölskyldur í landshlutanum. Markmið samstarfsins er að efla og samræma þjónustu með samþættri, snemmtækri og heildstæðri nálgun þar sem farsæld barna er leiðarljós í allri stefnumótun og framkvæmd þjónustu.

Á meðal þátttakenda í samstarfinu eru öll sveitarfélög á Suðurlandi, þar á meðal Vestmannaeyjabær, auk ríkisstofnana, framhaldsskóla, lögreglu, heilbrigðisþjónustu og svæðisráða í íþrótta- og æskulýðsmálum.

Farsældarráðið mun meðal annars vinna að samhæfðri þjónustu við börn og fjölskyldur, stuðla að auknum tækifærum barna til náms og samfélagsþátttöku, efla þverfaglegt samstarf þjónustuveitenda og þróa fjögurra ára aðgerðaáætlun byggða á þörfum og styrkleikum svæðisins.

Með ráðinu starfar verkefnastjóri í umboði Sambands sunnlenskra sveitarfélaga sem heldur utan um daglega framkvæmd og tengingu við Barna- og fjölskyldustofu. Samkvæmt yfirlýsingunni mun ráðið funda að lágmarki tvisvar á ári og skila skýrslu um starfsemi sína og framvindu aðgerðaáætlunar á tveggja ára fresti.

Samstarfsyfirlýsingin gildir út kjörtímabil núverandi sveitarstjórna, eða til maí 2026, og verður endurskoðuð í upphafi næsta kjörtímabils.

Nýjustu fréttir

Saltfisksala hjá meistaraflokkum ÍBV
ÍBV með mikilvægan sigur á ÍR
Kveikjum neistann: Jákvæðar vísbendingar
Hvattning til Eyjamanna
Heilsuefling starfsfólks fær aukið vægi
Handhafar Frétta-píramída 1992-95
ÍBV sækir ÍR heim
Siglt til Þorlákshafnar
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.