„Skólafulltrúar, ráðherrar, þingmenn og bæjarstjóri klappa hver öðrum á bakið í Eyjafréttum í þessari viku vegna áherslu þeirra á „kveikjum neistann“ verkefninu. Á sama tíma hafa börn á verkdeild (fötluð börn eða með annan vanda) eingöngu fengið 27 kennslustundir á viku í mörg ár. Lágmarkið samkvæmt reglum er 37 tímar og fá jafnaldrar í skólanum jafnvel rúmlega það,“ segir Örvar Guðni Arnarson hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Fésbókarsíðu sinni í dag. Vísar hann til viðtala við bæjarstjóra, skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyja, menntamálaráðherra og fleiri.
Sonur hans er í tíunda bekk í GRV, verkdeild ásamt fjórum öðrum á mismunandi aldri. „Við áttuðum okkur á þessu í byrjun síðasta skólaárs og kröfðumst þess þá að fá 37 tíma, sem fékkst að hluta. Í byrjun þessa skólaárs átti, eftir tuð í okkur, að veita að hámarki 30 tíma. Núna, eftir enn frekara tuð, er verið að „skoða málið,“ segir Örvar Guðni og bendir á óhagræðið.
„Með svona stuttri kennsluviku ásamt vetrar- jóla-, páska- og sumarfríum, starfsdögum, foreldrafundadögum, námsmati og skertum dögum verður umtalsverð þörf á úrræðum fyrir krakkana eftir skóla. Til að ná árangri í slíku úrræði þarf aðkomu bæjarfulltrúa til að styðja starfsfólk bæjarins við að koma á almennilegu úrræði með góðu húsnæði og stöðugleika í starfsmannamálum.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst