Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur samþykkt samhljóða fjárhagsáætlun fyrir árið 2026. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu bæjaryfirvalda. Þar segir enn fremur að tekjur séu varlega áætlaðar og ekki gert ráð fyrir að skatttekjur ársins 2026 verði hærri en raunskatttekjur þessa árs.
Rekstrartekjur eru áætlaðar 10,4 ma.kr. og rekstrarútgjöld eru áætluð 9,99 ma.kr. á árinu 2026. Sem fyrr eru fræðslu- og uppeldismál sá málaflokkur sem tekur mest til sín, en aukin áhersla hefur verið lögð á að efla þennan málaflokk undanfarin ár og svo verður áfram. Enn sem fyrr verður gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins og hagrætt þar sem við verður komið. Skuldahlutfall A-hluta er áætlað 78,5% og samstæðunnar 59,5%. En skuldaviðmiðið A-hluta 19,2% og samstæðunnar 11,4% á næsta ári.
Gert er ráð fyrir 1080 m.kr. til fjárfestinga á næsta ári. Stærstu framkvæmdir næsta árs eru viðbygging við íþróttahús, nýframkvæmdir í gatnagerð, þekja á Gjábakkabryggju, flóðljós á Hásteinsvöll og svið á Vigtartorg. Einnig verður fjárfest í nýjum litlum lóðsbát vegna aukinna umsvifa í höfninni. Allar fjárfestingar eru fjármagnaðar með handbæru og því engar lántökur áætlaðar. Stærstu fjárfestingarnar í þriggja ára áætlun eru áframhaldandi framkvæmdir við íþróttamannvirki og skólahúsnæði. Vestmannaeyjabær gerir ráð fyrir því að fjármögnun á almannavarnalögninni NSL4 verði sú sama og almennt gerist með uppbyggingu almannavarna og er samtal í gangi við ríkið um þá fjármögnun.
Áhersla verður áfram á góða þjónustu og traustan rekstur.
Álögum stillt í hóf:
Fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar er sterk. Skuldir eru litlar og langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga. Það eru í raun fá, ef nokkur, sveitarfélög sem geta státað af álíka góðri skuldastöðu, segir í tilkynningunni.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri sagði eftirfarandi í framsögu á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var í dag:
„Hér liggur fyrir bæjarstjórn metnaðarfull, en jafnframt ábyrg áætlun fyrir árið 2026, þar sem áherslan er á að tryggja okkar innviði og horfa til framtíðar fyrir okkar góða samfélag. Lykillinn er að saman fari traustur rekstur og góð þjónusta.
Staða bæjarins er sterk, alveg sama hvaða mælikvarði eða samanburður er notaður. Gert er ráð fyrir að skila rekstrarafgangi á næsta ári; 395 m.kr. af A hluta og 541 m.kr. af samstæðunni samkvæmt þeirri áætlun sem ég hef hér farið yfir.
Rekstur Vestmannaeyjabæjar gengur vel þrátt fyrir miklar áskoranir í formi innviða og mikilla breytinga í samfélaginu. Margt jákvætt er framundan og spennandi verkefni komin af stað. Við sjáum bjartsýni raungerast hér í Eyjum í formi fjárfestinga og uppbyggingar á vegum fyrirtækja og einstaklinga. Árangur og metnaður í fræðslu- og menntamálum hefur vakið mikla athygli á landsvísu og er það markmið sveitarfélagsins að halda áfram á þeirri braut.“




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst