„Gert ráð fyrir að staða bæjarsjóðs Vestmannaeyja verði áfram traust. Í fjárhagsáætluninni er lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórn, þar sem gætt verður aðhalds í rekstri bæjarins og varlega áætlað um tekjur. A-hluti bæjarsjóðs er skuldlaus við fjármálastofnanir. Útsvar er stærsti einstaki tekjuliður bæjarfélagsins. Við gerð áætlunarinnar um útsvar er byggt á lokaspá fjármálastjóra bæjarins um raunútsvarstekjur fyrir árið 2024,“ segir í formála að fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2025 sem Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri lagði fram til seinni umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Einnig gerði hún grein fyrir þeim breytingum sem urðu á fjárhagsáætluninni frá fyrri umræðu
Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði 313 milljónir króna en hjá samstæðunni 541 milljónir króna. Rekstrarafgangur hækkar lítillega milli fyrri og síðari umræðu eða um milljónir króna.
Breytingar á rekstri bæjarins frá fyrri umræðu eru minniháttar, en áætlanir um fjárfestingar hækkuðu um 34 milljónir króna milli umræðna auk 100 milljóna króna framlags vegna almannavarnarlagnar.
Í A- hluta sveitarsjóðs eru áætlaðar eignfærðar framkvæmdir að fjárhæð 708 milljónir króna, en í B-hluta eru áætlaðar framkvæmdir milljónir króna auk 100 milljóna króna framlags vegna almannavarnarlagnar. Samanlagðar eignfærslur eru áætlaðar 1.084 milljónir króna.
Þá er gert ráð fyrir tæpum 354 milljónir króna til ýmissa gjaldfærðra verkefna, svokallaðra sérsamþykkta. Þar af eru 150 milljónir króna fjárheimild til viðhalds húsa. Einnig er um að ræða ýmiss önnur átaksverkefni. Í A- hluta eru gjaldfærslur að fjárhæð 302 milljónir króna og í B- hluta 51,7 milljónir króna.
Staða bæjarsjóðs verður áfram sterk. Gert er ráð fyrir góðri rekstrarafkomu, áframhaldandi góðri þjónustu við bæjarbúa, hagkvæmni í rekstri, hóflegum sköttum og gjöldum ásamt fjárfestingum til að styðja við eignir og innviði bæjarins.
Harma seinkun á uppbyggingu Hamarsskóla
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Eyþór Harðarson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Jóhanna Harðardóttir og Margrét Rós Ingólfsdóttir
Bæjarfulltrúar minnihluta D lista, Eyþór, Hildur Sólveig, Margrét Rós og Óskar Jósúason samþykktu fjárhagsáætlunina en ítrekuðu bókun við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar. „Við hörmum að ekki sé fjárhagslegt svigrúm fyrir áður samþykktum framkvæmdum vegna viðbyggingar Hamarsskóla. Aðstaða bæði í Hamarsskóla og Tónlistarskólanum er komin að þolmörkum og þarfnast úrbóta.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á mikilvægi þess að gæta aðhalds í rekstri sveitarfélagsins. Með skynsamlegri fjármálastjórn er hægt að tryggja nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum sveitarfélagsins án þess að þurfa að grípa til lántöku, sem myndi takmarka framtíðarmöguleika sveitarfélagsins. Undirrituð munu áfram leggja sitt af mörkum til að ná þessum markmiðum.
Bæjarfulltrúar ítreka vilja sinn um að hér fari fram íbúakosning um minnisvarða og framkvæmdir á Eldfelli. Í því samhengi telja bæjarfulltrúar mikilvægt að fjármunir sem fara eigi í þetta verkefni séu frekar nýttir til raunverulegrar innviðabætingar í þágu íbúa sveitarfélagsins,“ segir í bókuninni.
Aðkallandi viðhald á fasteignum
Fulltrúar E og H lista, Íris, Helga Jóhanna Harðardóttir, Páll Magnússon, Sigríður Guðmundsdóttir og Njáll Ragnarsson svöruðu með eftirfarandi bókun:
„Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2025 sýnir fram á að rekstur og staða bæjarsjóðs verður áfram traust. Gert er ráð fyrir rekstrarafgangi upp á samtals 541 milljónir króna og A-hluti bæjarsjóðs er skuldlaus. Þetta er niðurstaða fjárhagsáætlunar þrátt fyrir að mikillar varfærni sé gætt í áætluðum tekjum og ekki gert ráð fyrir að skatttekjur næsta árs verði hærri en raunskatttekjur yfirstandandi árs.
Áfram er gert ráð fyrir góðri rekstrarafkomu, áframhaldandi góðri þjónustu við bæjarbúa, hagkvæmni í rekstri, hóflegum sköttum og opinberum gjöldum og öflugri fjárfestingu. Mikill vöxtur er í sveitarfélaginu og við því þarf að bregðast með auknu lóðaframboði og uppbyggingu innviða. Bæjarstjórn öll tók ákvörðun um frestun á viðbyggingu Hamarsskóla þar sem nauðsynlegt er að sinna brýnu og kostnaðarsömu viðhaldi á fasteignum bæjarins, m.a. í skólabyggingum og íþróttahúsi.“
Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs Vestmannaeyja 2025:
Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar bar upp lykiltölur í fjárhagsáætluninni.
Tekjur alls: kr. 6.485.737.000.
Gjöld alls fyrir fjármagnsliði: kr. 6.257.391.000.
Rekstrarniðurstaða, jákvæð: kr. 313.166.000.
Veltufé frá rekstri: kr. 985.779.000.
Afborganir langtímalána: kr. 0.
Handbært fé í árslok: kr. 1.570.257.000
Fjárhagsáætlun B-hluta bæjarsjóðs Vestmannaeyja 2025:
Rekstrarniðurstaða Hafnarsjóðs: kr. 97.668.000.
Rekstrarniðurstaða Vatnsveitu, tap: kr. -10.000.000.
Rekstrarniðurstaða Fráveitu: kr. 140.911.000.
Rekstrarniðurstaða Félagslegra íbúða: kr. 0.
Rekstrarniðurstaða Náttúrustofu Suðurlands: kr. 224.000.
Rekstrarniðurstaða Eygló eignarhaldsfélags ehf., tap: kr. -1.124.000.
Rekstrarniðurstaða Herjólfs ohf.: kr. 568.000.
Veltufé frá rekstri: kr. 436.160.000.
Afborganir langtímalána: kr. 8.926.000.
Fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyja 2025
Tekjur alls: kr. 9.696.956.000.
Gjöld alls: kr. 9.239.912.000.
Rekstrarniðurstaða, jákvæð: kr. 541.413.000.
Veltufé frá rekstri: kr. 1.421.940.000.
Afborganir langtímalána: kr. 8.926.000.
Handbært fé í árslok: kr. 1.570.257.000.
Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2025 var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.