Félags- og jafnfréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu, þetta kemur fram í frétt á rúv.is
Í svari Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, kemur fram að á árunum 2012-2017 fæddust að meðaltali 437 börn foreldra sem áttu heima í yfir 50 kílómetra fjarlægð frá fæðingarþjónustu. Þá fæddust að meðaltali 287 börn foreldra sem áttu heima í yfir hundrað kílómetra fjarlægð eða á einni af eyjunum við Ísland.
Ekkert í staðinn fyrir skerta fæðingarþjónustu
Á undanförnum árum hefur fæðingarstöðum á landinu fækkað til muna, árið 2003 voru þeir fjórtán en eru nú átta. Silja Dögg hefur nokkrum sinnum lagt fram frumvarp um að lengja fæðingarorlof þeirra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð en frumvarpið hefur ekki fengið framgöngu. Í svari félagsmálaráðherra kemur fram að ráðherrar velferðarráðuneytisins hyggist nú stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu á landsvísu, og leggja til leiðir til að koma til móts við þær og fjölskyldur þeirra, hvort sem það sé innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst